Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Notuðu piparúða á mótmælendur

11.03.2019 - 19:51
Mynd:  / 
Lögregla notaði piparúða á mótmælendur á Austurvelli síðdegis. Hælisleitendur og flóttamenn voru þar samankomnir til að krefjast úrbóta á aðbúnaði sínum og málsmeðferð sinni. Aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að til átaka hafi komið þegar lögregla taldi að verið væri að setja upp bálköst. Mótmælandi segir að fólkið hafi aðeins ætlað að skrifa á skilti þegar lögreglan greip inn í.

Tjölduðu og virtust safna í bálköst

„Þetta byrjaði með svolitlum hvelli hjá okkur klukkan þrjú i dag. Þá voru þeir búnir að setja upp tjöld og hlýddu ekki fyrirmælum um að taka þau niður,“ segir Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „Við lentum í stimpingum við þau að taka niður tjöldin.“

Enginn var handtekinn í þessum fyrstu stimpingum. „Það var síðar í kvöld þegar við töldum að væri verið að setja upp bálköst, þá var komið með pappa og vörubretti að hlaða í hrúgu. Við vildum taka þá í burtu. Við vildum ekki að þau gætu kveikt eld á vellinum,“ segir Arnar Rúnar. „Þegar við ætluðum að taka eldsmatinn í burtu þá var ráðist á okkur, sparkað í lögreglumann og reynt að frelsa handtekinn mann. Það voru tveir handteknir og síðan ráðist á lögreglu. Við beittum piparúða.“

Hafa reynt vikum saman að fá fund með stjórnvöldum

Eyrún Ólöf Sigurðardóttir var í hópi mótmælenda í dag. „Flóttamenn og hælisleitendur á Íslandi hafa reynt vikum saman að ná sambandi við stjórnvöld. Þau hafa sent fundarboð í gegnum Rauða krossinn til að ná fundi með yfirvöldum til að ræða kröfur sínar,“ sagði hún í kvöldfréttum. Kröfurnar eru í fimm liðum: að brottvísunum verði hætt, að hælisleitendur fái efnislega meðferð á umsóknum sínum, jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, trygga búsetu og rétt til að vinna. 

„Ég veit að hér er fólk samankomið, algjörlega staðráðið í að fara að lögum,“ sagði Eyrún. Hún sagði að þær upplýsingar hefðu fengist hjá borgaryfirvöldum að ekki yrði amast við því að sett yrðu upp tjöld. Hún andmælti orðum lögreglunnar um að reynt hefði verið að safna í bálköst. „Síðan ætlaði fólk að skrifa slagorð á skilti. Þá réðist lögreglan aftur til atlögu. Þetta var algjörlega langt umfram nokkuð sem var í gangi hérna. Það var ekkert sem kallaði á þessar aðgerðir.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV