Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Nota sms til að láta fólk á svæðinu vita

Mynd: RÚV / RÚV
Ef koma þarf brýnum skilaboðum til íbúa undir Öræfajökli og á svæðinu þar í kring mun almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra nota tæknina og senda sms-boð á alla íbúa – og raunar í alla þá síma sem eru á svæðinu þá stundina. Þetta segir Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri almannavarna.

Hann segir að almannavarnadeildin sé búin undir hlaup og menn fylgist grannt með þeim upplýsingum sem berist frá vísindamönnum. Og hann segist telja að fólkið sem býr á svæðinu sé ávallt viðbúið. „Ég held að fólk sé alltaf viðbúið sem býr næst jöklum og við eldfjöll og eru með þetta yfir sér alla tíð.“

Almannavarnir lýstu yfir óvissustigi vegna jarðhræringanna í gær og Hjálmar segir að það hafi verið gert til að fólk hlustaði betur eftir og athugaði með sitt nærumhverfi. Eins hafi þetta verið gert til að ýta við viðbragðsaðilum að ganga úr skugga um að þeir séu með öll sín mál í lagi – búnað og annað. Hann segir að alls ekki standa til að setja rýmingaráætlanir af stað.

Rætt var við Hálmar í kvöldfréttum sjónvarps. Hér að ofan má sjá umfjöllunina úr fréttatímanum um hræringarnar í Öræfajökli.