Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Nota Ísland sem trampólín

27.07.2012 - 08:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Kostnaður Eimskips við að reyna að stemma stigu við tilraunum hælisleitanda til að komast um borð í skip félagsins nemur tugum milljóna, segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips.

Tveir hælisleitendur voru handteknir í nótt eftir að þeir komust inn fyrir skilgreint öryggissvæði Eimskips við Sundahöfn. Mennirnir, sem eru frá Afganistan, ætluðu að komast um borð í Reykjafoss sem Ameríkuskip.

Mennirnir sáust einnig utanvið athafnasvæði Eimskips fyrir rétt rúmri viku en þeir voru með nokkuð magn af matvælum og vatni í fórum sínum í nótt. Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi, segir Eimskip hætta að skilgreina þessa menn sem hafa ítrekað reynt að komast um borð í skip félagsins sem hælisleitendur. „Við tölum ekki um þessa menn sem hælisleitendur, þeir eru að nota Ísland sem trampólín til að komast yfir til Bandaríkjanna og Kanada. Hælisleitendur eru allt annað, hælisleitendur eru að sækjast í betra líf á Íslandi,“ segir Ólafur.

Hann bætir því við að kostnaður Eimskips vegna þessara mála hleypur á tugum milljóna.  „Við höfum þurft að setja upp fleiri öryggismyndavélar og það er ýmislegur annar kostnaður eins og við skýrslugerð þegar við kærum þessi innbrot.“