Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Norræn byggð hvarf vegna ofveiði á rostungum

07.01.2020 - 06:29
Mynd með færslu
 Mynd: EPA - USGS
Ofveiði á rostungum gæti skýrt hvers vegna norrænir menn yfirgáfu Grænland á 15. öld, eftir ríflega 400 ára dvöld. Skögultennur rostunganna voru verðmætar vörur á miðöldum.

Samkvæmt rannsókn fornleifafræðinga við háskóla í Cambridge, Ósló og Þrándheim gætu ofveiði og aukið framboð á fílabeini á Evrópumarkaði á 13. öld hafa orðið til þess að norræn byggð á Grænlandi hnignaði.

Fornleifafræðingarnir rannsökuðu muni úr rostungabeinum frá því fyrir 15. öld víða í Evrópu. Þeir komust að því að nánast öll þeirra voru úr rostungum sem höfðust við á hafsvæði sem aðeins var hægt að komast að frá norrænum byggðum Grænlands. Þeir komust líka á snoðir um örlítið yngri muni úr minni rostungsbeinum, líklega úr kvendýrum og kópum. Þykir það benda til þess að fáir rostungsbrimlar hafi verið eftir í stofninum.

Guardian hefur eftir James Barrett, fornleifafræðingi við Cambridge háskóla, að skögultennur rostunga hafi verið verðmætasta viðskiptavara norrænna manna á Grænlandi. Þeir hafi skipt þeim út fyrir járn og timbur í Evrópu. Eftir því sem fækkaði í rostungastofninum, minnkaði byggð norrænna manna. 

Ofveiðinni er þó líkast til ekki einni um að kenna. Þar kemur að mati fornleifafræðinganna einnig til kuldaskeið, sem oft er kallað litla ísöld, auk ósjálfbærrar landbúnaðartækni. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV