Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Noregur fylgi Íslendingum í umskurðarbanni

20.02.2018 - 06:58
epa03002967 Father of the eight-day-old Ruben, Gyula Ferencz-Kuna calms down his son Ruben after the traditional Jewish circumcision ceremony in the Bet Shalom synagogue in Budapest, Hungary, 13 November 2011. Circumcision is a practice which is
 Mynd: EPA
Anne Lindboe, umboðsmaður barna í Noregi, segist styðja frumvarp sem nokkrir íslenskir þingmenn hafa lagt fram þar sem lagt er til bann við umskurði ungra drengja og vonar að það verði samþykkt. Frumvarpið hefur vakið heimsathygli og verið gagnrýnt af trúarleiðtogum múslima, gyðinga, kaþólikka og biskupi Íslands.

Lindboe segist í samtali við NRK styðja frumvarpið af nokkrum ástæðum. Starfsfólk norska heilbrigðiskerfisins hafi til að mynda sagt það skýrt og greinilega að umskurður ungra drengja sé sársaukafull aðgerð og þjóni engum læknisfræðilegum tilgangi. „Og svo er þetta líka alltaf spurning um val barnsins, að á það sé hlustað.“

Lindboe segist viss um að bann við umskurði drengja nái einnig til Noregs en það geti tekið sinn tíma. „Það er alltaf kostur þegar eitthvert annað land tekur fyrsta skrefið þannig að ég styð Ísland í þessu máli.“

Rolf Kirschner, læknir á norska Landspítalanum og fyrrverandi forsvarsmaður gyðinga í Noregi, segir við vef NRK að umskurður drengja eigi sér langa sögu . „Þetta er ósanngjörn umræða. Afleiðingarnar af þessari aðgerð eru ekki jafn miklar og margir vilja meina. Ég get ekki séð að þetta sé þannig vandamál að það þurfi dæma fólk í allt að sex ára fangelsi fyrir þetta.“

Fyrir fimm árum skrifuðu umboðsmann barna á Norðurlöndunum undir samnorræna yfirlýsingu um að 15 ára aldurstakmark yrði sett á aðgerðina.  Af því tilefni sagði Lindboe að hún sýndi því skilning að þetta væri hluti af menningu. Engu að síður ætti að bíða með aðgerðina þar til barnið væri orðið nógu stórt til að taka ákvörðun um umskurð sjálft.  

Það var fyrirspurn 16 ára drengs á Íslandi til umboðsmanns barna sem varð til þess að norrænu umboðsmennirnir létu málið til sín taka. Íslenski pilturinn vildi vita hvort foreldrar mættu ákveða, þegar maður væri lítið barn og hefði ekkert vit, að umskera mann. „Hvað svo ef manni líkar það ekki þegar maður er eldri? Mega foreldrar neyða mann í óþarfa lýtaaðgerð þegar maður hefur ekki aldur eða vitsmuni til að neita því?“ spurði drengurinn.

Frumvarp íslensku þingmannanna hefur vakið nokkra athygli út fyrir landsteinana. Það var meðal annars til umfjöllunar í breska blaðinu Guardian og í gær var frétt um frumvarpið ein sú mest lesna á vef BBC. Þá er einnig fjallað um frumvarpið á vef USA Today.