Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Norður Kórea endurreisir eldflaugaskotsvæði

06.03.2019 - 06:39
epa05787009 US Hawk missiles at the Korean War Memorial Museum in Seoul, South Korea, 12 February 2017. According to reports quoting South Korea's military, North Korea has test-fired an unidentified type of ballistic missile at 07:55 local time on
 Mynd: EPA
Norður-Kóreumenn eru nú í óða önn að endurbyggja eldflaugaskotsvæði það, sem þeir hétu að jafna við jörðu til að greiða fyrir sátt við granna sína í suðri og bandamenn þeirra í Bandaríkjunum. Þetta er fullyrt af bandarískum og suður-kóreskum njósnastofnunum, sem vísa á nýjar gervihnattamyndir af Sohae-skotsvæðinu máli sínu til stuðnings.

Myndirnar voru teknar tveimur dögum eftir leiðtogafund þeirra Kim Jong-uns og Donalds Trumps í Víetnam, sem lauk án áþreifanlegs árangurs. Fljótlega eftir að þíða komst í samskipti stjórnvalda í Pjong Jang og Washington í fyrra gáfu hin fyrrnefndu fyrirheit um niðurrif mannvirkja á skotsvæðinu, í von um að mýkja viðsemjendur sína. Vinna við niðurrifið hófst skömmu síðar, en sú vinna hefur legið niðri síðan snurða hljóp á samningaþráðinn í haust. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV