Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Norðmenn kaupa 50% í Fiskeldi Austfjarða

13.11.2015 - 12:06
Mynd með færslu
 Mynd: Sjókvíar í Berufirði - Fiskeldi Austfjarða
MNH Holding, eitt af stærstu fiskeldisfyrirtækjum Noregs, hefur keypt helmingshlut í Fiskeldi Austfjarða. Fiskeldi Austfjarða er með 11.000 tonna framleiðsluleyfi í Berufirði og Fáskrúðsfirði, ásamt því að eiga 50% eignarhlut í seiðastöðinni Ísþór í Þorlákshöfn og fiskvinnslunni Búlandstindi á Djúpavogi.

Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða, segir í samtali við fréttastofu að fjárfestingin og samstarfið við MNH Holding muni auðvelda vöxt fyrirtækisins. „Við erum fyrst og fremst ánægðir með að fá aðila sem hafa verið í fiskeldi í 20-30 ár og eru með mikla reynslu. Þetta sannar að það er grunvöllur fyrir þeirri vegferð sem farið var í árið 2012 að færustu menn í Noregi hafi ákveðið að taka þátt í verkefninu,“ segir Guðmundur.

Hægt sé að nýta sér þekkingu þeirra á öllum stigum frá seiðaframleiðu til afhendingar á vörunni. „Við getum þá haldið áfram að skapa störf. Við erum með leyfi til að vaxa, erum með rúm 2000 tonn í sjónum í dag og stefnum á að stækka á komandi árum,“ segir Guðmundur. Undir Fiskeldi Austfjarða starfa 12 við seiðaframleiðslu, 12 manns við eldið og um 30 í Búlandstindi við slátrun, vinnslu og pökkun.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV