
Spennan er nú bundin við hvert næsta skref ákæruvaldsins í máli Breivíks verður. Möguleiki er á að áfrýja til yfirréttar. Það ætlar Breivík sjálfur ekki að gera en saksóknarar hugsa sig um. Þetta er spurningin um hvort málaferlum verður framhaldið eða hvort Breivík hverfur nú inn fyrir veggi Ila-fangelsisins.
Eftir að dómur féll kom berlega í ljós að flestir voru ánægðir. Erik Sönsterli, sem átti dóttur á Útey, segir að fyrst hafi verið alger kyrrð og engin viðbrögð verið. Svo þegar fólkið kom út í hléi féllst það í faðma, segir Erik, sem vonar að ekki verði áfrýjað. Þversögin í þessu er að bæði þeir sem eiga um sárt að binda og fjöldamorðinginn sjálfur fagna niðurstöðunni. Breivík brosti ánægður þegar Wenche Arntzen dómforseti kvað upp dóminn.
Anders Berhing Breivík er dæmdur samkvæmt hegningarlögum og þar með var ljóst að hann teldist sakhæfur. Síðar í dómnum eru hins vegar raktar miklar efasemdir um andlegt heilbrigði hans en ekki nógu miklar að mati allra fimm dómara til að senda hann til meðferðar hjá geðlæknum.
Öryggisgæsla er strangasti dómur sem hægt er að fá í Noregi. Hann þýðir að þegar refsivist lýkur er hægt að framlengja gæslu fimm ár í senn til æviloka. Samkvæmt orðanna hljóðan í dómnum kemur það fyrst til álita árið 2032 en Breivík hefur þegar setið af sér eitt ár. Dómurinn er upp á 90 síður og verður lesinn í lotum fram eftir degi.