Norðlenska hættir að slátra á Höfn

11.03.2016 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Norðlenska ehf hefur ákveðið að hætta sauðfjárslátrun á Höfn í Hornafirði. Dagskrain.is greinir frá þessu. Félagið staðið að slátrun á Hornafirði í 13 ár. Ágúst Torfi Hauksson framkvæmdastjóri Norðlenska segir í samtali við Dagskrána að slátrun á Höfn hafi verið 50% dýrari á Höfn en í sláturhúsi félagsins á Húsavík. Stjórnendur séu nauðbeygðir til að draga úr kostnaði.

Framkvæmdastjórinn segir að einn starfsmaður á Höfn missi vinnuna við þetta, en starfsmönnum fjölgi ekki á Húsavík. Þar muni sláturdögum fjölga. Sauðfjárbændur eru margir ósáttir við þetta samkvæmt fréttinni og halda því fram að margir muni leita annarra leiða en að láta flytja fé sitt til Húsavíkur. Leiðin frá Höfn til Selfoss er um 400 kílómetrar, heldur styttri  en stysta leið til Húsavíkur og ekki um fjallvegi að fara. Þá er bent á að 270 kílómetrar séu frá Höfn til Vopnafjarðar. Viðskiptasvæði sláturhússins á Höfn hefur einnig náð vestur fyrir Kirkjubæjarklaustur, sem er miðja vega á milli Hafnar og Selfoss.

 

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi