Noomi Rapace í mynd eftir handriti Sjón

Mynd með færslu
 Mynd:

Noomi Rapace í mynd eftir handriti Sjón

09.02.2019 - 14:50

Höfundar

Sænska leikkonan Noomi Rapace leikur annað aðalhlutverkanna í kvikmyndinni Dýrið sem tekin verður upp hérlendis í sumar og verður tilbúin til sýninga á næsta ári, að því er fram kemur á vef Variety. Fjölmiðillinn lýsir kvikmyndinni sem yfirnáttúrulegu drama í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar, sem skrifar handrit ásamt Sjón.

Variety hefur eftir Rapace að handrit sem þetta sé sjaldgæft og að henni hafi fundist hún verða að taka þátt í myndinni. „Ég hef aldrei gert neitt þessu líkt áður og get ekki beðið eftir að hefja tökur og snúa til róta minna á Íslandi.“ Rapace átti heima á Íslandi í þrjú ár sem barn og var statisti í kvikmyndinni Í skugga hrafnsins.

Kvikmyndin fjallar um Maríu og Ingvar sem búa á afskekktum sveitabæ. Þegar lítil og óvenjuleg vera kemur inn í líf þeirra verður breyting á högum þeirra sem færir þeim mikla hamingju um stund. Hamingju sem síðar verður að harmleik.

Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim eru framleiðendur myndarinnar. Sara er tilnefnd til Grammyverðlauna, sem veitt verða í nótt, fyrir tónlistarmyndbandið Mumbo Jumbo, lag í flutningi Tierra Whack.