Nokkurra daga bolluhátíð lýkur með bolludegi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson

Nokkurra daga bolluhátíð lýkur með bolludegi

12.02.2018 - 16:25

Höfundar

Landsmenn sporðrenndu tugum þúsunda af bollum í dag, enda bolludagur, sem er eiginlega orðinn síðasti dagur í nokkurra daga bolluhátíð. Áætlað er að íslenskir bakarar baki um milljón bollur fyrir bolludaginn og bakari á Akureyri segir að bolluátið sé alltaf að aukast.

Það var mikið að gera í Axels bakaríi á Akureyri í morgun og bollurnar runnu út. Sumt fólk keypti sér eina á meðan annað fór út með nokkra kassa af bollum. Hjá bökurunum var mesta törnin að klárast og langri vakt að ljúka.

Bolluvika frekar en bolludagur

„Ég er búinn að vera að síðan átta á sunnudagskvöld, þannig að það eru nokkrir tímar,“ segir Axel Gunnar Vatnsdal, bakari og stofnandi Axels bakarís.
En eruð þið ekki búin að baka lengur, þetta eru orðnir nokkrir dagar?“ 
„Já, þetta eru alveg orðnir 7-8 dagar.“
„Þannig að þetta er kannski orðin bolluvika frekar en bolludagur?“
Já, það má eiginlega segja það.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Bolluvaktin hjá Axel stendur í rúma viku

Vatnsdeigsbollurnar vinsælastar

Axel segist áætla að um 20 þúsund bollur séu bakaðar í Axels bakaríi að þessu sinni. Og þetta eru vatnsdeigsbolllur, Irish coffie, jarðaberja, súkkulaði, vanillusprengjur, berlínarbollur og fleira og fleira. Og venjulegar vatnsdeigsbollur séu vinsælastar. „Já bara með rjóma, sultu og glassúr,“ segir hann.

Kjöt- og fiskbollur einnig á borðum í dag

En bolludagurinn snýst ekki bara um rjómabollur. Kjöt- og fiskbollur eru líka á diskum landsmanna í dag og nemendur og kennarar Verkmenntaskólans á Akureyri borðuðu til dæmis vel af kjötbollum í hádeginu. Og það er mikið borðað af bollum. Skotið hefur verið á að bakarar baki milljón bollur fyrir bolludaginn og svo eru nokkur þúsund bollur auðvitað bakaðar í heimahúsum.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Áætlað er að um milljón bollur séu bakaðar fyrir bolludaginn

„Klárast allt, alveg sama hve mikið er bakað“

„Við byrjum alltaf með smá forskot helgina á undan. Það klárast allt,“ segir Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona Axels. „Og svo byrjum við á miðvikudeginum og vinnum okkur aðeins inn í þetta. Það bara klárast allt, það er alveg sama hversu mikið er bakað, sem er bara gaman!“

„Er sennilega bara svona gott“

„Við höldum alltaf að þetta sé alltaf eins og gerum út frá því,“ segir Axel. „En það er alltaf meira, meira og meira. Ég veit ekki alltaf hvað er í gangi. Kannski er þetta bara svona gott. Þetta er ekkert mjög hollt, en alltaf gott,“ segir Axel bakari.

Tengdar fréttir

Austurland

Bakari sér rúmið í hillingum eftir bolludag