Það var mikið að gera í Axels bakaríi á Akureyri í morgun og bollurnar runnu út. Sumt fólk keypti sér eina á meðan annað fór út með nokkra kassa af bollum. Hjá bökurunum var mesta törnin að klárast og langri vakt að ljúka.
Bolluvika frekar en bolludagur
„Ég er búinn að vera að síðan átta á sunnudagskvöld, þannig að það eru nokkrir tímar,“ segir Axel Gunnar Vatnsdal, bakari og stofnandi Axels bakarís.
„En eruð þið ekki búin að baka lengur, þetta eru orðnir nokkrir dagar?“
„Já, þetta eru alveg orðnir 7-8 dagar.“
„Þannig að þetta er kannski orðin bolluvika frekar en bolludagur?“
„Já, það má eiginlega segja það.“