Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Nokkuð á reiki hver telst Flateyringur

Mynd: RÚV / RÚV

Nokkuð á reiki hver telst Flateyringur

13.09.2016 - 19:03

Höfundar

Sumarhúsaeigendur, „artífartar“, innflytjendur, aðfluttir og innfæddir. Þessir hópar og samskipti þeirra skapa og skilgreina Flateyri nútímans. Þorp sem státaði af rúmlega 400 íbúum í byrjun tíunda áratugarins en telur í dag um 150 manns. Harkan í samskiptum er oft mikil en það er samheldnin sömuleiðis, skilgreiningin á því hverjir fá að hampa titlinum Flateyringur er á reiki og þegar öllu er á botninn hvolft er það hvorki vegna hafs né fjalla sem fólk velur að búa þar heldur vegna atvinnunnar.

Þetta kemur fram í meistararannsókn Sæbjargar Freyju Gísladóttur, þjóðfræðings, á svæðisvitund þeirra sem eyrina byggja.  

Á Flateyri býr gott fólk og þar er gott að vera

Rannsókn Sæbjargar var þátttökurannsókn, hún rannsakaði íbúa Flateyrar í þrjú ár; fór í vettvangsferðir til Flateyrar, vann um tíma í frystihúsinu, tók viðtöl og lagði spurningakannanir fyrir bæjarbúa. Loks flutti hún þangað með fjölskyldu sinni. Eitt af þeim þemum sem hún greindi var mikil áhersla íbúa á jákvæðni, það mátti helst ekki tala illa um Flateyri. Lögð var áhersla á að þar væri gott að vera og þar byggi gott fólk.

„Ímyndin um Flateyri er dálítið snjóflóðið og atvinnuleysi, það eru alltaf fiskvinnslur að hætta og nýjar að koma í staðinn.“

Ímyndin sem birtist af þorpinu í fjölmiðlum og komi fram hjá brottfluttum Flateyringum litist oft af sorg og hnignun. Hún sé frekar neikvæð og að einhverju leyti úr takti við upplifun heimamanna. Hún nefnir sem dæmi snjóflóð sem féll úr Skollahvilft fyrir þremur árum og náði ekki niður á veg. Það hafi verið blásið upp í fjölmiðlum en fólkið á staðnum hafi ekkert kippt sér upp við það enda snjóflóð algeng á vorin. 

Fólk er dálítið í vörn

„Fólk er dálítið í vörn hérna, þau vilja ekki neikvæða umfjöllun, eðlilega. Þess vegna, þegar það kemur eitthvað upp þá er fólk kannski fljótt að fara í vörn og verja staðinn. Þess vegna hugsaði ég og setti fram pælingar um hvort þess vegna væri talað svona mikið um gott fólk og hvað það væri gott að vera hérna, þegar þetta er náttúrulega bara venjulegur smábær, margt gott og margt slæmt.“

Hún segir Flateyringa standa í ákveðinni baráttu við Ísafjarðarbæ sem þorpið tilheyrir. Það sé búið að flytja hjúkrunarheimilið yfir á Ísafjörð og það hafi verið rætt um að færa grunnskólann.

Kannski þarf fólk að vera sérstakt

Tveir viðmælendur Sæbjargar sögðu að hugsanlega þyrfti fólk að vera sérstakt til að þrífast á Flateyri. Áföll væru tíð, nándin mikil og hver einstaklingur mikils virði. Í bland við erfið veður og atvinnuskilyrði reynist þetta stundum of mikið fyrir suma. Það þurfi harðan skráp til að þola þetta og kannski herðist hann með harkalegri stríðni og eftir því sem áföllunum fjölgar.

Flestir töluðu vel um Flateyri

Langflestir þeirra sem svöruðu spurningum hennar töluðu vel um Flateyri en nokkrir lýstu því yfir að þeir hafi orðið fyrir einelti þegar þeir bjuggu þar eða upplifað vanlíðan. Einu sinni var verið að ræða einelti á sjöunda áratugnum á Facebook, þá benti einn á að fjörðurinn hefði ekkert gert. Sæbjörg túlkaði það svo að það mæti ræða um mannlegan breyskleika en það mætti ekki blanda náttúrunni í málið.  Sæbjörg ályktar sem svo að það falli kannski ekki allir inn í hópinn. Þeir sem geri það ekki flytji hreinlega í burtu.

Hver er Flateyringur? 

Fram kom að ekki væru allir sammála um hverjir gætu talist Flateyringar. Skilgreiningin á því væri afar fljótandi. Íslenskum íbúum fannst sumum að ábyrgðin á samfélaginu hvíldi einungis áþeim sjálfum, vegna þjóðernis og sterkrar tengingar við Flateyri, þrátt fyrir að innflytjendur tækju margir mikinn þátt í samfélagslegum verkefnum. 

Sæbjörg hyggst þegar fram líða stundir gefa út bók um efnið. 

Hlýða má á umfjöllunina í heild í spilaranum hér fyrir ofan.