Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Nógu margir ferðamenn fyrir lestarrekstur

26.05.2017 - 07:58
Mynd: Milla Ósk Magnúsdóttir / RÚV
Ferðamenn sem koma hingað til lands eru nú þegar orðnir það margir að þeir standa undir kostnaði við lest á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Þetta segir Runólfur Ágústsson sem unnið hefur að undirbúningi og könnun á rekstri lestarsamgangna.

„Sá fjöldi sem hér er í dag stendur orðið fyllilega undir þeim rekstri og þeim kostnaði sem svona verkefni fylgir,“ sagði Runólfur Ágústsson á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. „Menn sjá auðvitað að þetta er tiltölulega dýr ferðamáti fyrir staka miða. Viðskiptamódelið gengur út á að þú átt val á rútu fyrir einhverjar 2.500 krónur, listaverð á einni ferð, hún er um það bil klukkutíma niður í bæ, eða lest sem er innan við 20 mínútur og kostar um það bil tvöfalt meira, eða um það bil fimm þúsund.“ Hann tók þó fram að þeir sem nýttu fluglestina oftar, svo sem sjö þúsund starfsmenn flugvallarins og íbúar á Suðurnesjum, gætu fengið ferðir á mun hagstæðara verði.

Runólfur vísaði í rannsóknir á ferðavenjum þeirra sem fara um Keflavíkurflugvöll. Þar kom meðal annars fram að síðasta sumar fóru um fimm prósent farþega á Keflavíkurflugvelli aldrei út fyrir flugvöllinn. Fáir þeirra sem komu inn í landið tóku leigubíl en um 40 prósent leigðu sér bílaleigubíl.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV