Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Njósnaaðgerð sem feli í sér refsivert brot

11.12.2018 - 20:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Í beiðni Reimars Péturssonar lögmanns um vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna vegna hljóðupptaka frá Klaustri þann 20. nóvember segir að „þessi njósnaaðgerð" hafi falið í sér refsivert brot. Þeir fjórir alþingismenn sem standi að baki beiðninni geti því krafist miskabóta og annarra fébóta af þeim sem beri á henni ábyrgð.

Beiðni lögmannsins til dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur frá 6. desember síðastliðnum, um að fram fari vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna vegna hljóðupptaka frá Klaustri þann 20. nóvember, var lögð fram áður en Bára Halldórsdóttir steig fram og sagðist hafa tekið samtalið upp.

Beiðnin var gerð fyrir hönd alþingismannanna Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Bergþórs Ólasonar, Gunnars Braga Sveinssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þar segir að þau hafi treyst því „og átt réttmætar væntingar til þess" að samræður þeirra á Klaustri þennan dag „sættu ekki njósnum, upptöku né annarri vinnslu óviðkomandi aðila". Fréttir á vefmiðlunum dv.is og stundin.is hafi gefið til kynna „að friðhelgi sú sem átti að ríkja um þessar samræður hafi verið rofin með refsiverðu broti". Telji þeir að „þessi njósnaaðgerð" hafi „a.m.k. falið í sér refsivert brot sem þeir eigi sókn sakar í" og „falið í sér saknæma og ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu þeirra." Þeir geti því krafist miskabóta og annarra fébóta af þeim sem beri á henni ábyrgð.

„Til að málshöfðun með refsi- og bótakröfum geti orðið raunhæf er óhjákvæmilegt að leiða fyrst í ljós hver hafi framkvæmt aðgerðina," segir í beiðninni. Ætlunin sé að „leiða fyrirsvarsmenn og starfsmenn veitingastofunnar fyrir dóm til vitnis um mannaferðir og aðstæðurá veitingastofunni þann dag sem upptakan var framkvæmd". Einnig að fá upptökur úr öryggismyndavélum til sýningar fyrir dómi og afrit greiðslukortakvittana frá þeim sem hafi framkvæmt upptökuna. 

Eftir að Bára hafði stigið fram, þann 7. desember, ítrekaði lögmaður fjórmenninganna beiðnina og sagði að þótt nafn þess sem stóð að upptökunum liggi fyrir þyki „engu að síður mikilvægt að tryggja sönnun um hvernig atvikum var í raun og veru háttað" þegar upptökurnar voru gerðar. „Beiðendur halda því fast við beiðni sína". 

Í dag var Bára boðuð til þinghalds í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. desember næstkomandi, vegna öflunar sönnunargagna.