Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Njáluhandrit hittast á "ættarmóti"

09.01.2019 - 20:26
Mynd:  / 
Eitt óvenjulegasta ,,ættarmót" sem sögur fara af var á Árnastofnun í vikunni. Þá var stefnt saman í fyrsta sinn öllum ættkvíslum Njáluhandrita sem sum eru um 700 ára gömul.
Mynd með færslu
 Mynd:
Svanhildur Óskarsdóttir

Þetta var gert í tilefni dánardægurs Árna Magnússonar handritasafnara 7. janúar. Handritunum var öllum raðað á borð í einni stofu stofnurnarinnar. Svanhildur Óskarsdóttir rannsóknarprófessor segir að þar megi líta upptök Njálu. 

„Reykjabók er núna í heimsókn á Íslandi. Var lánuð hingað í tilefni af sýningunni Lífsblómið en annars á hún heima í Kaupmannahöfn.“

Þannig að þetta voru fagnaðarfundir?

„Já þetta voru sannarlega fagnaðarfundir.“

Er þetta í fyrsta sinn sem þessar Njálur hittast?

„Já, það getur vel verið að þetta sé í fyrsta sinn sem að akkúrat þessar bækur liggja allar saman á einu borði.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Reykjabók

Talið er að Njála sé sett saman um 1280, segir Svanhildur, og elstu handritin séu frá um 1300 eða upphafi 14. aldar. Á þessu ættarmóti voru saman komnar þrjár ættikvíslir Njálu, en rannsóknir fræðimanna, sérstaklega Einars Ólafs Sveinssonar á síðustu öld, leiddu í ljós að skipta mætti handritunum í þrjár kvíslir, segir hún. 

„Og það er akkúrat hér höfum við það sem kallað er Y-kvíslin, það er Möðruvallabók. Hér er Reykjabók, sem heyrir til X-kvíslinni, og Gráskinna er Zeta, zetukvíslin.“

Mynd með færslu
Forn handrit eru talin helsti menningarfjársjóður íslensku þjóðarinnar og því gleðitíðindi þegar fleiri slík finnast. Hér má sjá nokkur Njáluhandrit í vörslu Árnastofnunar. Mynd:

Ein rökin fyrir því að Ísland ætti að verða fullveldi var tungumálið, íslenskan. Hér byggi fólk sem skyldi þúsund ára gamla íslenska texta. Svanhildur segir að þegar handritin voru skrifuð hafi skrifararnir þurft að spara skinnið eða bókfellið. 

„Svo nota skrifarnir skammstafanir og styttingar. Það er líka orðið miklu betra fyrir fólk að skilja það eftir að sms-ið kom til sögunnar, þá uppgötvuðum við aftur þetta hvað það getur verið mikilvægt að þú veist stytta og nota bara einn tvo stafi fyrir heilt orð.“

„Þeir ríða þrír saman Gunnar og bræður hans. Gunnar hafði atgeir og sverðið Ölvisnaut en Kolskeggur hafði saxið. Hjörtur hafði og alvæpni." Þessi texti úr Njálu er auðskilinn þegar Svanhildur les hnökralaust textann upp úr Reykjabók með stafsetningum og styttingum. 

Hún segir ómetanlegt að geta séð handritin saman sér í lagi vegna þess að fræðimenn hafa nýlega lokið rannsóknum á Njáluhandritum sem komin eru út á bók á ensku og heitir: New Studies in the Manuscript Tradition of Njáls saga. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Nýja bókin um rannsóknir á Njáluhandritum.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV