Níutíu prósent verði skráð á markaði

24.11.2011 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Framtakssjóður Íslands stefnir að því að níutíu prósent af eignum sjóðsins verði komnar á hlutabréfamarkað árið 2014. Framkvæmdastjóri sjóðsins segir mikilvægt að byggja upp traust á hlutabréfamarkaði og telur að hann muni glæðast á næstu tveimur árum.

Framtakssjóður Íslands á nú í átta félögum, en stefnt er að því að selja eignarhluta hans í félögunum á næstu fimm til sjö árum. Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri sjóðsins hélt fyrirlestur á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í morgun, en þar kom fram að um fimmtán prósent af eignum sjóðsins séu nú skráðar á hlutabréfamarkaði, en sjóðurinn stefni á að um níutíu prósent af eignum hans verði skráðar á hlutabréfamarkað árið 2014.

Finnbogi segir ýmislegt þurfa að koma til til að stuðla að aukinni virkni á markaði, og nefnir skýra arðgreiðslustefnu, rýmri yfirtökureglur og jákvætt skattaumhverfi í því tilliti. Þá sé mikilvægt að taka upp nýjan gjaldmiðil hér á landi til að laða að erlenda fjárfesta, sem hafi margir hverjir litla trú á íslensku krónunni. Lítil virkni á hlutabréfamarkaði hér á landi sé áhyggjuefni.