Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Níu slasaðir eftir umferðarslys við Saltvík

04.06.2018 - 19:43
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Níu voru fluttir slasaðir eftir harðan árekstur tveggja bíla við Saltvík á Vesturlandsvegi á áttunda tímanum í kvöld. Níu sjúkrabílar voru sendir á vettvang, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu en nánari upplýsingar um líðan fólksins liggja ekki fyrir. Vesturlandsvegi við Kjalarnes var lokað í um tvær klukkustundir en mikil bílaröð myndaðist frá Vesturlandi í átt til höfuðborgarsvæðisins. Um fimmtíu starfsmenn voru kallaðir til á Landspítalanum til að sinna hinum slösuðu.

Vesturlandsvegur var síðan opnaður á tíunda tímanum í kvöld.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðamaður forstjóra Landspítalans, segir í samtali við fréttastofu í kvöld að spítalinn hafi verið settur á gult viðbragðsstig þegar sjúkrabílar komu með þá slösuðu. Því hafi svo verið aflétt skömmu eftir að fólkið kom. 

Anna segir að fimmtíu starfsmenn hafi verið kallaðir til af bráðamóttöku og gjörgæslu til að sinna fólkinu og færa hafi þurft sjúklinga til að koma hinum slösuðu fyrir. Anna segist ekki geta tjáð sig um líðan hinna slösuðu. 

Fréttin hefur verið uppfærð

Tilkynning lögreglu um slysið: 

Kl. 19:23 barst tilkynning um alvarlegt umferðarslys á Vesturlandsvegi skammt frá Enni á Kjalarnesi. Vesturlandsvegurinn er lokaður frá Þingvallavegi og að Hvalfjarðarvegi. Hjáleið er um Kjósarskarðsveg.

Viðbragðsaðilar eru komnir á staðinn.

Búist er við að vegurinn verði lokaður í nokkurn tíma. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV