Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Níu dáin úr ebólu í nýjum faraldri í Kongó

epa06758268 People buy food from vendors in Mbandaka, north-western Democratic Republic of the Congo, 22 May 2018 (issued 23 May 2018).  Local residents are eating monkey meat and other bush meats that are believed to spread Ebola virus despite warnings
Rétt vika var liðin síðan því var formlega lýst yfir, að ebólufaraldur í norðvesturhluta Kongó væri að baki, þegar fyrsta ebólusmitið í austurhluta landsins var staðfest og tíundi ebólufaraldurinn í Kongó frá 1976 þar með orðinn staðreynd.  Mynd: EPA
Níu hafa látist af völdum ebólusýkingar í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó eftir að veiran lét enn og aftur á sér kræla þar í landi um mánaðarmótin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu í Kinshasa. Er þetta tíundi ebólufaraldurinn sem upp gýs í landinu síðan 1976, en ekki var liðin nema vika frá því að sá níundi rann sitt skeið formlega á enda, hinn 24. júlí síðastliðinn, þegar fyrsta smitið í þessum nýjasta faraldri var greint, hinn 1. ágúst.

Síðan þá hafa borist fregnir af 43 tilfellum af blæðandi veirusóttarsmiti. Þar af hafa 16 verið staðfest sem ebóla en 27 eru óstaðfest en líkleg ebólutilfelli. Við það bætast 46 sýkingar til viðbótar sem grunur leikur á um að séu einnig af völdum ebóluveirunnar, en rannsókn stendur enn yfir. Öll tilfellin hafa greinst í sama héraðinu, Beni-héraði í austurhluta landsins, sem liggur að hvorutveggja Úganda og Rúanda.

Um 1.000 manns sem talið er að hafi komist í tæri við smitbera hafa verið skráðir hjá heilbrigðisyfirvöldum og eru undir sérstöku eftirliti, auk þess sem tólf bólusetningarteymi hafa verið send á vettvang.

33 létust í síðasta faraldri, sem blossaði upp í byrjun maí.  Þá var gripið til þess ráðs að nota nýtt bóluefni gegn ebólu, sem enn er á tilraunastigi. Ríflega 3.300 manneskjur voru bólusettar. Hin bólusettu tilheyrðu flest áhættuhópi fólk sem ýmist var vitað eða talið líklegt að hefði komist í tæri við smitaða einstaklinga, beint eða óbeint. Er talið að þetta hafi ráðið miklu um það, hve fljótt og vel gekk að koma böndum á faraldurinn.

Í frétt AFP af yfirstandandi faraldri segir að sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar óttist að viðsjár og vígaferli í Beni torveldi forvarnarstarfið að þessu sinni. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV