Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Níu af tíu Jarðarbúum með fordóma gagnvart konum

06.03.2020 - 06:27
Mynd með færslu
 Mynd: Inspirally
Hartnær 90 prósent Jarðarbúa af öllum kynjum ala með sér einhverja kynbundna fordóma í garð kvenna. Þetta er meginniðurstaða könnunar Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna, sem birt var í gær í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna á sunnudaginn kemur.

Um helmingur telur karla betri stjórnmálamenn

Könnun Þróunaráætlunarinnar, sem nær til 75 ríkja þar sem um 80 prósent mannkyns búa, leiðir í ljós að níu af hverjum tíu samsinna minnst einni, algengri kreddu um yfirburði karla gagnvart konum. Dæmi um slíka hleypidóma er sú trú margra að karlar séu betri stjórnmálamenn og fyrirtækjastjórnendur en konur; að það sé körlum mikilvægara en konum að sækja sér háskólamenntun og að karlar eigi að hafa forgang á konur í atvinnulífinu almennt.

Um helmingur aðspurðra er á því að karlar séu konum fremri í pólitík og um 40 prósent telja þá hæfari til að stjórna fyrirtækjum. Þá sögðust 28 prósent telja karla eiga fullan rétt á því, að berja konur sínar. 

Ríflega fjórðungur með fordóma þar sem ástandið er best

Hvergi reyndust kynjakreddurnar útbreiddari en í Pakistan, þar sem 99,81 prósent aðspurðra samsinntu einni eða fleiri fullyrðingum af þessum toga. Katar og Nígería eru skammt undan, jöfn í þriðja sætinu, þar sem hlutfallið var 99,73 prósent.

Í þeim löndum sem könnunin nær til eru kynbundnir fordómar í garð kvenna minnstir í Andorra. Þar taka engu að síður 27 prósent undir minnst eina algenga kynjakreddu, körlum í vil. Næst kemur Svíþjóð með 30,01 prósent og í landinu í þriðja sæti, Hollandi, eru nær 40 prósent aðspurðra enn á þessum buxunum. Í Noregi er hlutfallið 41,27 prósent og í Finnlandi er rúmlega helmingur aðspurðra haldin einni eða fleiri kynjakreddum. Könnunin nær hins vegar hvorki til Íslands né Danmerkur.

Af öðrum löndum sem Íslendingar bera sig gjarnan saman við má nefna að í Frakklandi tóku 56 prósent undir minnst einn hleypidóm, í Bretlandi voru það 54.6 prósent, 62,6 prósent í Þýskalandi og  57,31 prósent aðspurðra í Bandaríkjunum. 

Uppræta þarf rótgróna andstöðu við raunverulegt jafnrétti

Þessar tölur gefa „nýjar vísbendingar um þær ósýnilegu hindranir sem enn eru á leið kvenna til jafnréttis" þrátt fyrir „framfarir um áratugaskeið" segir í yfirlýsingu stjórnenda Þróunaráætlunarinnar, sem fylgdi skýrslunni.

Forstjóri stofnunarinnar, Achim Steiner, segir þar að öll sú vinna, „sem hefur reynst svo árangursrík við að brúa kynjabilið í heilbrigðis- og menntamálum þarf nú að þróast áfram til að takast á við nokkuð enn meira krefjandi: Rótgróna andstöðu - karla jafnt sem kvenna - við raunverulegt jafnrétti.“

Eru stjórnvöld í ríkjum heims hvött til að bregðast við og vinna að því að útrýma þessum kynbundnu hleypidómum, umfram allt með upplýsingu og menntun.