Níræður sundskáli í endurnýjun lífdaga

Mynd með færslu
 Mynd:

Níræður sundskáli í endurnýjun lífdaga

30.01.2015 - 20:20
Nú standa yfir endurbætur á einu elsta sundmannvirki landsins; Sundskála Svarfdæla. Þar stungu Svarfdælingar sér fyrst til sunds fyrir tæplega 90 árum.

Þeir voru framsýnir Svarfdælingarnir sem réðust í framkvæmdir við yfirbyggða sundlaug í dalnum á þriðja áratug síðustu aldar. Sundskálinn er ein af fyrstu yfirbyggðu sundlaugum á landinu og byggingin þótti á sínum tíma mikið afrek í svo fámennu byggðarlagi. Svarfdælingar stungu sér fyrst til sunds í Sundskálanum árið 1929. Það eru því bráðum liðin 90 ár frá því þar var byrjað að synda. 

En þrátt fyrir ýmsar endurbætur hefur Sundskálinn látið á sjá í gegnum árin. Honum var lokað fyrir tæpum tveimur árum þar sem hann þótti ekki lengur uppfylla tilheyrandi reglur. En áfram skal haldið og nú eru vel á veg komnar viðgerðir á þessu aldna mannvirki.

„Við erum svona að leggja lokahönd á þetta þannig á næstu misserum sjáum við fyrir okkur að við getum farið að hleypa í aftur og nota sundskálann", Gísli Rúnar Gylfason, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Dalvíkurbyggðar.

Gísli segir mikinn vilja til að halda Sundskálanum í rekstri, en Dalvíkurbyggð reki tvær aðrar sundlaugar. Því sé hugmynd að leigja aðstöðuna félagsamtökum eða fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þetta sé sögufrægt hús og sundlaugin náttúrulaug með sírennsli úr volgum uppsprettum: „Þetta snýst jú oft um menninguna og söguna og það er sérstaða og hún skiptir líka svolitlu máli í ferðabransanum".