Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Níræður Dani sakaður um stríðsglæpi

Danir í Frikorps Danmark, sjálfboðaliðar í þýska hernum
 Mynd: Bundesarchiv
Efraim Zuroff, yfirmaður Simon Wiesenthal stofnunarinnar, sem leitar stríðsglæpamanna nasista úr síðari heimsstyrjöldinni, sakar níræðan Dana um að hafa tekið þátt í helförinni og krefst þess að hann verði leiddur fyrir rétt og sóttur til saka fyrir stríðsglæpi.

Zuroff hefur kært Helmuth Leif Rasmussen, fyrrverandi sjálfboðaliða í þýska hernum, og segir að nægar sannanir séu til um sekt hans. Hann hafi látið dönsku lögregluna fá þessi sönnunargögn. Zuroff segir að engu máli skipti þó að langt sé um liðið, glæpirnir séu jafn alvarlegir.

Fangavörður í Bobrusk útrýmingarbúðum

Zuroff segir að Simon Wiesenthal stofnunin viti að Rasmussen hafi verið fangavörður í Bobrusk útrýmingarbúðum nasista í Hvíta-Rússlandi. Rasmussen var dæmdur í fangelsi í Danmörku eftir síðari heimsstyrjöldina og tók upp nýtt nafn þegar hann var látinn laus. Berlingske hafði samband við hann vegna ásakana Simon Wienthal stofnunarinnar. Sagðist Rasmussen ekki hafa framið neina glæpi og sér þætti óskiljanlegt að vera sakaður um stríðsglæpi.

7000 Danir í þýska hernum

Talið er að um sjö þúsund Danir hafi gerst sjálfboðaliðar í þýska hernum. Langflestir þeirra börðust við Rússa á austurvígstöðvunum. Sagnfræðingurinn Claus Bundgaard Christensen sem hefur rannsakað tímabilið segir að öruggt sé að enn séu á lífi í Danmörku menn sem hafi tekið þátt í að myrða gyðinga; helförinni. Efraim Zuroff er sömu skoðunar. Hann segist vera viss um að Helmuth Leif Rasmussen sé ekki sá eini eftirlifandi í Danmörku af þeim sem voru í Bobruk búðunum í Hvíta-Rússlandi.

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV