Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Niðurstaðan veltur á óákveðnum í Skotlandi

17.09.2014 - 12:25
epa04403960 A final rally by supporters of the Yes campaign, on the steps of Glasgow's Royal Concert Hall, Scotland 17 September 2014 as campaign Chairman Dennis Canavan  addresses them using a megaphone. Directly behind the megaphone is Yes Scotland
 Mynd:
Mjög mjótt er á munum og öllu er til tjaldað á síðasta degi kosningabaráttunnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um sjálfstæði Skotlands á morgun. Andstæðingar sjálfstæðis mælast með ívið meira fylgi en sjálfstæðissinnar. Það ræðst af því hvað óákveðnir kjósendur velja, hvort Skotland fær sjálfstæði.

Skoðanakönnun Daily Telegraph og tvær aðrar nýjar skoðanakannanir voru birtar í gærkvöld. Samkvæmt þeim öllum ætlar meirihluti Skota að hafna sjálfstæði. Sé óákveðnum sleppt eru 52 prósent andvíg en 48 prósent  ætla að greiða því atkvæði að Skotland fái sjálfstæði. Séu allir teknir með í reikninginn eru 44 prósent með sjálfstæði og 48 prósent á móti. Átta af hverjum hundrað kjósendum hafa enn ekki gert upp hug sinn.

Alex Salmond, leiðtogi skoskra þjóðernissinna og fyrsti ráðherra Skotlands, segir í opnu bréfi til Skota að láta ekki tækifærið um sjálfstæði ganga sér úr greipum. Tilboð bresku sjónmálaflokkanna þriggja um aukin völd fyrir Skotland komi of seint og gangi of skammt. Það sé í raun móðgun við heilbrigða skynsemi.

Sekkjapípur ómuðu þar sem fjöldafundur sjálfstæðissinna var haldinn í miðborg Glasgow í gærkvöld. Erlendir þjóðarleiðtogar og fyrrverandi leiðtogar eins og Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, koma fram á síðustu stundu og reyna að hræða Skota frá því að velja sjálfstæði. Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, sagði í dag að baráttan fyrir því  að Skotland og Katalónía á Spáni fái sjálfstæði spilli  fyrir sameiningu Evrópu.