Niðurstaða í máli gæludýraeigenda

21.05.2015 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Guðmundsson - RÚV
Öryrkjum í íbúðum á vegum Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins, verður gert að flytja með gæludýr sín. Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóri sjóðsins segir að gæludýraeigendum verði þó fundnar aðrar íbúðir í eigu sjóðsins, þar sem leyfilegt er að hafa dýr.

Dýraeigendur í íbúðum á vegum Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins, fengu á dögunum þau tilmæli að losa sig við gæludýrin eða yfirgefa íbúðir sínar við Sléttuveg og Hátún. Þessu var almennt mjög illa tekið. Hússjóðurinn á hins vegar fjölmargar íbúðir og segir Björn að komið verði til móts við þá sem ekki geta hugsað sér að skilja við dýr sín, með því að finna þeim aðrar íbúðir.

Fullur skilningur á að fólk vilji eiga gæludýr
 „Niðurstaðan er sú að við áréttum þær reglur sem þegar hafa verið í þessum húsum en jafnframt er fullur skilningur að fólk vilji halda hundum og köttum,“ segir Björn. „ En það verður líka að taka tillit til þeirra sem þola ekki nábýli við slík dýr, meðal annars af völdum alvarlegra sjúkdóma. Þar af leiðandi verðum við að framfylgja þeim húsreglum sem hafa verið í gildi síðastliðin ár.“

Björn bendir á að reglurnar hafi legið fyrir þegar fólkið skrifaði undir leigusamning. Hann segir ekki ljóst hversu margir gæludýraeigendurnir eru en einhverjir hafi þegar sett sig í samband við stjórn sjóðsins.

Gæludýraeigendum fundnar nýjar íbúðir
„Við munum reyna að finna nýja íbúð fyrir þá aðila sem hafa sett sig í samband við okkur,“ segir Björn.

 

Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi