Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Niðurstaða héraðsdóms kemur ekki á óvart

02.02.2018 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur synjaði í dag kröfu Glitnis HoldCo um að staðfesta lögbann, sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík media í október. Forsætisráðherra segir að lögbannið hafi verið gríðarlegt inngrip inn í starfsemi frjálsra fjölmiðla, og að stjórnvöld þurfi að taka lög um lögbann til endurskoðunar.

Öllum kröfum Glitnis HoldCo var ýmist hafnað eða vísað frá. Í dómnum segir að nægar ástæður hafi verið fyrir umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnunum. Ljóst sé að málefnin varði almenning og umræðu í lýðræðissamfélagi. Úr gögnunum höfðu miðlarnir skrifað fréttir um viðskipti Bjarna Benediktssonar, núverandi fjármálaráðherra, fyrir hrun.

Ekki liggur fyrir hvort Glitnir HoldCo kemur til með að áfrýjar niðurstöðu dómsins til Landsréttar.

Forsætisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun fyrirhugaðar endurbætur á lögum um tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsi. Hún segir ljóst að ekki hafi verið grundvöllur fyrir því mikla inngripi sem felist í lögbanni, í máli Stundarinnar og Reykjavík Media.  „Ég sagði það þá og stend við það, það þarf brýna nauðsyn til að takmarka tjáningarfrelsi og það er afgerandi niðurstaða dómsins að slík nauðsyn var ekki fyrir hendi. Það er líka bent á að þarna er verið að grípa inn í tjáningarfrelsið á mjög viðkvæmum tíma.“ Það komi því ekki á óvart að lögbanninu hafi verið hnekkt í héraðsdómi.

Katrín segir mikilvægt að bæta stöðu fjölmiðla- og tjáningarfrelsis, og að lög um lögbann verði tekin til endurskoðunar í þeirri vinnu sem fram undan er. „Þetta auðvitað sýnir nauðsyn þess að stjórnvöld fari yfir þennan dóm og sömuleiðis löggjöfina í kringum þessi mál öll og hvort ekki sé ástæða til að endurskoða hana.“