Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Niðurstaða fæst um samræmd próf síðar í dag

14.03.2018 - 12:27
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Menntamálaráðherra og fulltrúar Menntamálastofnunar hafa ákveðið hvernig brugðist verði við þeim vandræðum sem komu upp við samræmdu prófin í síðustu viku. Ekki verður greint frá niðurstöðum fundarins fyrr en síðar í dag. Hvort prófin verði endurtekin, hvort niðurstöður gildi í þeim prófum sem nemendur náu að ljúka og hvort nemendur fái að vita hvernig þeir stóðu sig í prófunum.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir að fara þurfi yfir lagalegar hliðar málsins áður en greint veður frá niðurstöðunni. 

Um 4.300 nemendur í 9. bekk um land allt áttu að taka próf í íslensku, stærðfræði og ensku í síðustu viku. Rafræna prófakerfið reyndist ekki þola álagið og meirihluti nemenda gat ekki komist inn í kerfið eða datt út úr því. Á endanum var tekin ákvörðun um að fresta bæði íslensku og enskuprófinu. Engin tæknileg vandamál komu upp í stærðfræðiprófinu.