Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Niðurskurður í heilbrigðismálum

01.10.2011 - 15:06
Landsspítalinn þarf að hagræða um sexhundruð og þrjátíu milljónir á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. Það gerir niðurskurður um eitt komma níu prósent. Sjúkrahúsið á Akureyri á að hagræða um sextíu og níu milljónir eða eitt komma sjö af hundraði.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands hagræðir um níutíu og fimm milljónir, Heilbrgðisstofnun Austurlands um sjötíu og eina milljón og heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki um sextíu og tvær komma átta milljónir. Það er átta prósenta niðurskurður frá fjárlögum yfirstandandi árs.

Óljóst hvar verður skorið niður í rekstri LSH

Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga næsta árs, sem dreift var á Alþingi í dag, eru útgjöld velferðarráðuneytisins áætluð níutíu og sex milljarðar króna, sem er hækkun um fimm milljarða frá yfirstandandi ári. Þegar tekið hefur verið tillit til verðlagshækkana og annars stendur hins vegar eftir aðhaldskrafa upp á tvo milljarða. Þar af verður skorið niður um sexhundruð og þrjátíu milljónir hjá Landsspítalanum en Björn Zoega, forstjóri LSH, sagði í samtali við fréttastofu í dag að óljóst væri hvar í rekstrinum þetta fé yrði sótt.

Lífeyristryggingar lækka
Stærstu útgjaldaliðir velferðarmála eru hins vegar lífeyris- og sjúkratryggingar, samtals um áttatíu og sjö milljarðar. Útgjöld til lífeyristrygginga verða lækkuð um þrjúhundruð milljónir með því að breyta forsendum fyrir útreikningi á aldurstengdri örorkuuppbót og með því að hækka ekki barnalífeyri í samræmi við verðlagshækkanir eftir fyrsta júní, síðastliðinn.

Skilyrði fyrir tæknifrjóvgun þrengd
Útgjöld til sjúkratrygginga verða lækkuð um nærri þrjúhundruð og níutíu milljónir með því að þrengja skilyrði fyrir þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvgun, lækka kostnað vegna lyfja og endurskoða greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í sjúkraþjálfun.