Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Neytendastofa lítur málið alvarlegum augum

04.03.2015 - 19:39
Mynd: RÚV / RÚV
Neytendastofu hafa borist ábendingar um vörur sem fullyrt sé að hafi ákveðinn lækningamátt, sem fáist ekki staðist. Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri hjá Neytendastofu, segir að Neytendastofa líti málið alvarlegum augum og hyggist taka þetta mál og fleiri fyrir á allra næstu dögum.

Þórunn Anna segir ástæðu til að rannsaka þessar fullyrðingar og yfirlýsingar sem koma fram í kynningum á vörunum og auglýsingum. Stofnunin hefur eftirlit með lögum um viðskiptahætti og markaðssetningu. „Í lögunum er lagt bann við að blekkja neytendur, veita þeim villandi upplýsingar til að fá þá til að kaupa ákveðnar vörur og þar að auki er algjörlega bannað að veita villandi upplýsingar um lækningamátt tækja, rangar eða villandi. Það er litið alvarlegum augum.“

Það sé seljandans að sanna slíkar fullyrðingar. „Geti hann sannað þær og sýnt fram á að þær séu réttar, þá er það í lagi, en fullyrðingarnar verður hann að geta sannað,“ bendir hún á. 

Þórunn Anna segir að eitthvað berist af ábendingum um að fullyrðingar um virkni vara sem í boði eru fáist ekki staðist. „Ekki endilega frá fólki sem telur að það hafi lent í því heldur aðallega frá fagaðilum sem sjá þessar auglýsingar eða kynningu og benda á að það geti í rauninni ekki staðist.“

Þórunn segir að Neytendastofa líti málið alvarlegum augum. „Og ætlum að taka þetta mál auk annarra til meðferðar hjá okkur á allra næstu dögum.“