Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Neysluvandi foreldra þyngri og víðtækari

10.07.2018 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Nærri tvöfalt fleiri tilkynningar hafa borist barnaverndarnefnd á Akureyri vegna áfengis- og vímuefnaneyslu foreldra það sem af er ári miðað við sama tíma í fyrra. Fíknivandi er að verða þyngri og víðtækari segir forstöðumaður barnaverndarnefndar Eyjafjarðar.

Aukning á misnotkun lyfja

Árið 2017 var áberandi mikil fjölgun tilkynninga um vanrækslu vegna áfengis- og vímuefnaneyslu foreldra til barnaverndarnefndar Eyjafjarðar frá árinu á undan. Það sem af er þessu ári eru tilkynningar í þessum flokki orðnar næstum tvöfalt fleiri en á sama tíma í fyrra.

Forstöðumaður barnaverndarnefndar Eyjafjarðar, Vilborg Þórarinsdóttir, segir ástandið alvarlegt og telur að það endurspegli ástandið í þjóðfélaginu. „Það er þetta sem er að springa út, þessi vandi varðandi misnotkun á lyfjum sem er í gangi, þetta er vandi sem ekki hefur verið hægt að takast á við eða fyrirbyggja," segir hún.

Börn oftar tekin af heimilum

Árið 2017 bárust alls 594 tilkynningar til nefndarinnar. Vilborg segir fleiri tilkynningar berast frá lögreglu og heilbrigðisstarfsfólki en áður. 
Staða foreldra með fíknivanda sé verri og aðbúnaður barna hafi versnað, og samhliða því fjölgi þeim tilfellum þar sem fjarlægja þarf börn af heimilum. 

Hún segir að neysla foreldra sé að versna í málum sem þegar eru afskipti af. Það komi þó ný upp ný mál. „Við lesum í rauninni bara úr þessu og því sem lögreglan hefur hjá sér, að neysluvandi er að verða þyngri og víðtækari en áður og alvarlegri inngripum í kjölfarið að fjölga," segir Vilborg.

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður