Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Neymar segist hafa verið leiddur í gildru

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot úr myndbandinu

Neymar segist hafa verið leiddur í gildru

02.06.2019 - 11:56
Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar hefur verið sakaður af konu um nauðgun í París. Hann segist hafa verið leiddur í gildru og birti WhatsApp skilaboð frá meintu fórnarlambi hans. Þar má sjá margar persónulegar myndir af konunni.

Kona tilkynnti lögreglu í São Paulo í Brasilíu um málið og segir að Neymar hafi nauðgað henni í hótelherbergi í París þann 15. maí klukkan 20:20. Hann spilar með Paris St. Germain. Breska ríkisútvarpið BBC greindi fyrst frá málinu.

Í tilkynningu til lögreglu segir að hann hafi borgað fyrir konuna flug frá Brasilíu til Parísar og herbergi á lúxushóteli í borginni.

Neymar á að hafa komið á hótelherbergið, sýnilega undir áhrifum áfengis, og veist að konunni eftir stuttar samræður og nauðgað henni.

Konan flaug til Brasilíu tveimur dögum seinna og tilkynnti lögreglu þar um málið. Hún segist ekki hafa leitað til lögreglu fyrr þar sem hún hafi verið í tilfinningalegu uppnámi og ekki treyst sér til að gera það í Frakklandi.

Hafnar ásökunum

Fram kom í yfirlýsingu frá talsmönnum knattspyrnumannsins að Neymar hafnaði ásökunum. Faðir hans sagði við brasilíska fjölmiðla að um augljósa gildru væri að ræða og hugsanlega yrði gripið til þess ráðs að birta skilaboð sem konan sendi Neymar á samskiptaforritinu Whatsapp til að hreinsa nafn leikmannsins.

Talsmenn PSG segjast ekki hafa fengið veður af málinu samkvæmt frétt New York Times. Neymar er einn launahæsti knattspyrnumaður heims.

Birti skilaboð frá konunni

Neymar hefur nú birt skilaboð sem konan sendi honum á WhatsApp á Instragram og Facebook-síðum sínum. Þar bregður fyrir nafni hennar. Konan sendi honum síðast skilaboð daginn eftir að meint nauðgun átti sér stað.

Neymar segir að skilaboðin sýni fram á samband tveggja einstaklinga í einrúmi og ekkert ólöglegt hafi átt sér stað. Hann vonast til að lögregla sjái skilaboðin og hvað gerðist í raun og veru.

Í banni í frönsku deildinni og Meistaradeild Evrópu

Hann er nú staddur í heimalandi sínu þar sem brasilíska landsliðið undirbýr sig fyrir Suður-Ameríkukeppnina, stærsta mót landsliða í álfunni. Neymar var sviptur fyrirliðabandi landsliðsins vegna agabrota.

Hann var dæmdur í fimm leikja bann í Frakklandi eftir að hafa veist að aðdáanda Rennes eftir að liðið sigraði PSG í úrslitaleik franska bikarsins.

Neymar er einnig í þriggja leikja banni í Meistaradeild Evrópu eftir að hann gagnrýndi dómara harðlega eftir leik liðs síns og Manchester United þar sem hið síðarnefnda sló PSG út eftir umdeilda vítaspyrnu.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Neymar sakaður um nauðgun

Fótbolti

Neymar í þriggja leikja bann vegna Instagram

Fótbolti

Neymar kærður af UEFA

Fótbolti

UEFA rannsakar Instagram-færslu Neymar