Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Neymar ekki með á Suður-Ameríkumótinu

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Neymar ekki með á Suður-Ameríkumótinu

06.06.2019 - 06:21
Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar tekur ekki þátt í Suður-Ameríkumótinu í knattspyrnu í sumar vegna meiðsla sem hann hlaut í vináttuleik gegn Katar í nótt.

Neymar sleit liðband í hægri ökkla og þurfti aðstoð við að fara af velli. Hann yfirgaf leikvanginn á hækjum.

Leiknum lauk með 2-0 sigri Brasilíu með mörkum frá Richarlison leikmanni Everton og Gabriel Jesus leikmanni Manchester City.

Fram kom í yfirlýsingu frá brasilíska knattspyrnusambandinu að ekki Neymar muni ekki ná sér af meiðslunum fyrir mótið sem hefst 15. júní í Brasilíu. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hver tekur sæti hans í liðinu.

Þetta er mikið áfall fyrir brasilíska landsliðið enda Neymar þeirra besti leikmaður og hefur skorað 60 mörk í 97 landsleikjum

Hann var nýverið sviptur fyrirliðabandinu vegna agabrota. Neymar er þriggja leikja í banni í frönsku deildinni og Meistaradeild Evrópu.