Hrafnapar gerði sér hreiður, eða laup eins og hrafnshreiður kallast, á húsi Listasafns Einars Jónssonar við Eiríksgötu. Fyrir skömmu litu svo fjórir ungar dagsins ljós og um helgina tóku þrír þeirra á loft. Einn unginn átti aðeins erfiðara uppdráttar og komst ekki lengra en úr hreiðrinu og niður á jörð, en hann gat ekki flogið.
Hann var þó í góðu yfirlæti foreldra sinna og systkina sem fylgdust með ferðum hans. Þá gaukaði starfsfólk listasafnsins að honum góðgæti.
Þegar Freyr Arnarson, myndatökumaður fréttastofu, kom í garð listasafnsins í morgun til að mynda hrafnsungana var ófleygi unginn í smá vandræðum. Grár köttur gerði sig líklegan til að ráðast á hann.
Hvað gerðist svo má sjá í meðfylgjandi myndbandi.