Neyðin hrekur hrafnsunga á flug - myndband

Mynd með færslu
 Mynd:

Neyðin hrekur hrafnsunga á flug - myndband

23.06.2014 - 13:44
Ófleygur hrafnsungi lenti í kröppum dansi við kött í garði Listasafns Einars Jónssonar í morgun. Unginn var sá eini af fjórum sem enn hafði ekki tekið á loft þegar köttinn bar að garði.

Hrafnapar gerði sér hreiður, eða laup eins og hrafnshreiður kallast, á húsi Listasafns Einars Jónssonar við Eiríksgötu. Fyrir skömmu litu svo fjórir ungar dagsins ljós og um helgina tóku þrír þeirra á loft. Einn unginn átti aðeins erfiðara uppdráttar og komst ekki lengra en úr hreiðrinu og niður á jörð, en hann gat ekki flogið.

Hann var þó í góðu yfirlæti foreldra sinna og systkina sem fylgdust með ferðum hans. Þá gaukaði starfsfólk listasafnsins að honum góðgæti.

Þegar Freyr Arnarson, myndatökumaður fréttastofu, kom í garð listasafnsins í morgun til að mynda hrafnsungana var ófleygi unginn í smá vandræðum. Grár köttur gerði sig líklegan til að ráðast á hann.

Hvað gerðist svo má sjá í meðfylgjandi myndbandi.

[email protected]

Tengdar fréttir

Fljótsdalshreppur

Ungar finnast í baðskáp og innkaupakerru

Innlent

Hrafnsungar í laup