Neyðast til að loka fangelsum og fækka föngum

06.12.2015 - 11:56
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Páll Winkel, forstjóri fangelsismálastofnunar, segir að stofnunin neyðist til að loka fangelsum og fækka föngum verði breytingartillögur meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið að veruleika. Stofnunin sé komin að þanmörkum.

Breytingartillögur meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið gera ráð fyrir að framlög ríkissjóðs til Fangelsismálastofnunar hækki um 45 milljónir króna á næsta ári, en í frumvarpinu var stofnuninni ætlað að reka sig fyrir um 1.600 milljónir króna árið 2016. Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir hækkunina nema í raun 34 milljónum, eftir að tekið hefur verið tillit til ellefu milljóna króna niðurskurðarkröfu. Samkvæmt sérstakri neyðaráætlun, sem Fangelsismálastofnun vann að beiðni innanríkisráðuneytisins, taldi stofnunin að hún þyrfti að lágmarki 80 milljóna króna hækkun á næsta ári.

„Og þá er ég ekki að tala um, og ég undirstrika það, einhvern óskalista eða gæluverkefni eða eitthvað í þeim stíl, heldur lágmarksupphæð til að geta rekið kerfið hættulaust,“ segir Páll í samtali við fréttastofu.

Hann segist hafa fundið fyrir skilningi hjá formanni fjárlaganefndar sem og innanríkisráðherra, en einhver staðar í ferlinu hafi sá skilningur farið fyrir lítið.

„Sko, við erum búin að loka fangelsum, við erum búin að fækka fangavörðum, við erum búin að minnka þjónustu við fanga, það eru minni heimsóknir til fanga, börn geta bara komið á virkum dögum í heimsóknir, það er minna aðgengi að námi. Allt sem kostar peninga, minni útivist og svo framvegis og svo framvegis. Við rekum ekki fangavarðaskóla nema annað hvert, þriðja hvert ár. Allt sem kostar og við getum komist undan, því komumst við undan. Nema það er eitthvað sem þú getur bara gert í ákveðinn tíma, þú getur ekki stanslaust haldið því áfram og á ákveðnum tíma þá ertu kominn að þanmörkum, og það var í sjálfu sér í hittifyrra,“ segir Páll.

Neyðast til að loka óhagkvæmari einingum

Til stendur að taka nýtt fangelsi á Hólmsheiði í notkun á næsta ári. Páll segir framlög ríkissjóðs til fangelsismálastofnunar engu breyta þar um, enda hagkvæm eining í rekstri eins og fangelsið á Litla-Hrauni. Hins vegar gæti stofnunin neyðst til að loka öðrum óhagkvæmari fangelsum til að bregðast við, eins og Kvíabryggju eða fangelsinu á Akureyri.

„Staðan er þannig að við erum búin að loka einu fangelsi, og staðan er þannig að við getum ekki haft eins marga fanga á næsta ári eins og núna. Þetta er ósköp einfalt, okkar verkefni eru fangar og við þurfum að draga úr verkefnunum og það er þá að fækka föngum.“

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV