Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Neyðarteymi til Tasiilaq á Austur-Grænlandi

18.01.2017 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Íbúar Tasiilaq á Austur-Grænlandi eru skelkaðir eftir að tvær konur í bænum sviptu sig lífi og sú þriðja var myrt, á innan við viku. Þann 7. janúar svipti 40 ára kona sig lífi, þremur dögum síðar 21 árs kona og þann 13. janúar var 39 ára kona myrt af 72 ára manni. Í Tasiilaq búa rúmlega tvö þúsund manns. Yfirvöld hafa sent neyðarteymi til Tasiilaq til að bregðast við ástandinu.

Grænlenski fréttamiðillinn KNR greinir frá þessu.

Héldu ljósagöngu til að minnast kvennanna

Þrátt fyrir 15-20 gráðu frost mættu um tvö hundruð manns til ljósagöngu á mánudaginn þar sem kvennanna var minnst. „Til að deila sorginni og sýna að við höfum von,“ segir Anna Kûitse Kúko, ein af skipuleggjendum göngunnar í samtali við Sermitsiaq. Paulus Lind, annar skipuleggjenda göngunnar, segir að Tasiilaq hafi ávallt glímt við félagsleg vandamál eins og sjálfsvíg og kynferðisbrot: „En nú erum við sammála um að það er nóg komið. Nú verður að gera eitthvað.“ Hann segir mikilvægt að tala meira opinskátt um félagsleg vandamál. 

Neyðarteymi til Tasiilaq 

Til að bregðast við atburðunum, og veita íbúum Tasiilaq neyðarhjálp og stuðning, hélt sveitarstjóri sveitarfélagsins Semersooq, sem Tasiilaq tilheyrir, Asii Chemnitz Narup, til Tasiilaq á mánudag ásamt formanni vinnu- og velferðarsviðs, sálfræðingi, geðlækni og félagsráðgjafa. Unnið verður að því að kanna hverjir þurfi á faglegri hjálp að halda sem og veita hana. „Það er gott að finna að það er stuðningur utanfrá. Að finna að við erum ekki ein með sorgina,“ segir Anna Kûitse Kúko. 

Þarf að bæta forvarnir

Formaður bæjarráðs Tasiilaq, Ole Nuko, sagði í tölu sinni eftir ljósagönguna að forvarnir í bænum, til að fyrirbyggja sjálfsvíg, væru ekki fullnægjandi. Þær þyrfti að efla, ráða sálfræðinga og skipuleggja áfengislausa viðburði. Hann telur lausnina ekki felast í því að banna áfengi eins og komið hefur til tals. Í Tasiilaq er þó ekki leyfileg sala á sterku áfengi.

Sjálfsvígstíðni eykst

Talið er að um 40 Grænlendingar taki líf sitt á ári hverju og er það með því mesta í heiminum. Þá er það æ yngra fólk sem tekur líf sitt. Í niðurstöðum rannsóknar Christina Viskum Lytken Larsen á sjálfsvígum á Grænlandi segir að augljós fylgni sé á milli hækkandi tíðni sjálfsvíga og hraðra breytinga frá hefðbundnu veiðimannasamfélagi yfir í vestrænt nútímasamfélag. Breytingarnar hafi valdið margvíslum félagslegum vandamálum eins og alkahólisma og fjölda kynferðisbrota. 

Hraða breytingar á austurströnd Grænlands

Þróun samfélagins á Austur-Grænlandi hefur verið sérstaklega hröð en Austur-Grænlendingar eru ekki taldir hafa átt samskipti við aðra íbúa heimsins þar til undir lok 19. aldar. Á austurströnd Grænlands búa nú um 3000 manns og því stærstur hluti í Tasiilaq. Tasiilaq er í sveitarfélaginu Semersooq sem nær yfir á vesturströnd Grænlands og er höfuðborg Grænlands, Nuuk, einnig höfuðstaður sveitarfélagsins. Það er því álíka langt frá Tasiilaq til Nuuk á vesturströnd Grænlands eins og frá Tasiilaq til Íslands. Síðasta sumar fjallaði fréttastofa RÚV um fólksfjölgun í Tasiilaq og mikið atvinnuleysi sem skapi ýmis félagsleg vandamál.