Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Neyðarlínan grípur í taumana í Mjóafirði

13.03.2018 - 14:14
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Stefánsson - RÚV Landinn
Neyðarlínan hyggst setja upp ljósleiðara í Mjóafirði á Austurlandi til að tryggja net - og símasamband á svæðinu. Rekstarstjóri neyðarlínunnar vonast til þess að vinna við uppsetninguna geti hafist í sumar.

Íbúar í Mjóafirði hafa lýst yfir áhyggjum af viðvarandi sambandsleysi á svæðinu síðustu ár. Byggðin er afskekkt og aðeins hægt að komast þangað sjóleiðis stærstan hluta ársins. Þegar sambandið dettur út missa íbúarnir allt samband við umheiminn – netið dettur út og hvorki er hægt að nota GSM- síma né heimasíma. 

Erna Ólöf Óladóttir, íbúi í Mjóafirði, segir íbúa hafa ítrekað kallað eftir úrbótum en að lítið hafi verið aðhafst í málinu. 

„Þetta eru auðvitað ömurlegar aðstæður sem fólk býr við. Ekki bara útaf öryggi, heldur líka bara út frá því hvernig nútímaþjóðfélag gengur fyrir sig,“ segir Magnús Hauksson, rekstrarstjóri hjá neyðarlínunni. „Það er okkar áhyggjuefni þegar fólk getur ekki haft samband við neyðarlínuna. Okkur er umhugað um að fólk geti hringt í 112, alltaf og alls staðar.“

Kostnaðurinn 40 - 50 milljónir

Stefnt er að því að setja upp ljósleiðara í Mjóafirði í sumar en verkið hefur verið talsvert lengi í undirbúningi. Neyðarlínan hefur séð um að leiða saman aðila sem eru tilbúnir að leggja verkefninu lið.

„Þegar málunum er þannig háttað að markaðsaðilar sjá sér ekki hag í að byggja upp fjarskiptakerfi, hefur neyðarlínan stundum komið að málum. Þetta er samfélalagslegt samstarf. Við höfum komist að samkomulagi við Seyðisfjarðarkaupstað, Fjarðarbyggð, Mílu og Fjarskiptasjóð um að fjármagna þetta en neyðarlínan mun sjá um framkvæmdina,“ útskýrir Magnús en framkvæmdin við að leggja ljósleiðarann mun kosta á bilinu 40 - 50 milljónir.

Magnús segir undirbúninginn ganga vel en tekur fram að enn eigi eftir að ganga frá nokkrum lausum endum til að uppsetning ljósleiðarans geti hafist. 

„Við þurfum að semja við landeigendur og fá önnur opinber leyfi eins og gengur. En við erum vongóð um að við náum að byrja á þessu í sumar.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV