Neyðarástandi lýst yfir í Canberra

31.01.2020 - 03:46
epa08177503 A bushfire burns behind a ridge near the town of Tharwa, 30 km south of Canberra, Australia, 30 January 2020.  EPA-EFE/MICK TSIKAS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Í fyrsta sinn í nærri tvo áratugi ákváðu yfirvöld í Canberra, höfuðborg Ástralíu, að lýsa yfir neyðarástandi í dag. Gróðureldar nálgast borgina óðfluga og tilvonandi hitabylgja næstu daga gæti ýtt eldunum í átt að úthverfum í suðurhluta borgarinnar.

Andrew Barr, æðsti embættismaður höfuðborgarsvæðisins, segir neyðarástandið þegar taka gildi og það verði í gildi eins lengi og þörf krefur. Gróðureldarnir gætu orðið stjórnlausir og yfirlýst neyðarástand séu sterkustu skilaboð sem yfirvöld geta sent til íbúa svo þeir geti undirbúið sig. Yfirvöld vöruðu einnig við svonefndum glóðarárásum, sem Ástralar nefna rauðglóandi öskuna sem vindurinn getur feykt á undan sér. Síðast var lýst yfir neyðarástandi á höfuðborgarsvæðinu árið 2003, þegar gróðureldar eyðilögðu nærri 500 heimili.

Hitabylgja og stormur á leiðinni

Yfir 40 stiga hiti mældist í Suður-Ástralíu fylki í gær. Búist er við því að hitabylgjan nái til Melboune og Canberra í dag, og loks til Sydney um helgina þar sem hiti gæti náð allt að 45 stigum. Hitinn, þurrkur og vindar auka hættuna á enn frekari gróðureldum í hluta Nýja Suður-Wales og Viktoríu, þar sem logar enn glatt í 80 gróðureldum. 

Að hitabylgjunni lokinni er búist við óveðri, sem gæti deyft eldana en á móti aukið hættuna á flóðum. Veðuröfgarnar hafa verið miklar síðustu daga og vikur í Ástralíu. Gríðarstór haglél, flóð og aurskriður hafa herjað á íbúa sem áður börðust við þurrka og skógarelda. Að minnsta kosti 33 eru látnir og landsvæði á stærð við Ísland hefur brunnið í gróðureldunum sem hafa geisað síðan í september. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi