Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Neyðarástand í Púertó Ríkó vegna Dorian

29.08.2019 - 01:22
epa07800333 A handout photo made available by NASA shows a satellite image acquired from NASA Worldview application of Hurricane Dorian as it approaches the east coast of Puerto Rico, 28 August 2019. Dorian has been upgraded to a category 1 hurricane before making landfall on Puerto Rico on 28 August. Florida governor Ron DeSantis has declared on 28 August a state of emergency in Florida as Dorian could make landfall as a category 3 hurricane over the weekend.  EPA-EFE/NASA WORLDVIEW HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - NASA WORLDVIEW
Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir neyðarástandi í Púertó Ríkó vegna fellibylsins Dorian sem nú er yfir eyjunni. Þetta er fyrsti fellibylurinn í ríkinu síðan María olli þar miklum usla fyrir tveimur árum.

Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna segir að búast megi við mikilli úrkomu í Púertó Ríkó og á Jómfrúareyjum, sem geti valdið miklum flóðum í fyrramálið. Talið er að Dorian eigi eftir að eflast enn frekar þegar hún yfirgefur eyríkin í Karíbahafi og ríður yfir meginland Bandaríkjanna. 

Wanda Vazquez, ríkisstjóri Púertó Ríkó, segir eyjaskeggja betur undirbúna nú en fyrir tveimur árum. Yfirvöld aðstoðuðu fólk við að yfirgefa heimili sín. Byrjað var á íbúum um 30 þúsund heimila sem enn eru óuppgerð eftir fellibylinn Maríu, að sögn AFP fréttastofunnar. 

María var fjórða stigs fellibylur, sem er næst hæsti styrkurinn í mælikerfi fellibylja. Samkvæmt opinberum tölum létu 64 lífið af völdum fellibylsins, en talið er að allt að þrjú þúsund hafi látið lífið vegna hans, og þess rasks sem hann olli á allri þjónustu í ríkinu.

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, hefur þegar lýst yfir neyðarástandi í ríkinu vegna komu Dorian. Hann biðlaði til íbúa á austurströnd Flórída að búa sig undir fellibylinn. Einnig er talið að Dorian gæti farið yfir Georgíuríki um helgina.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV