Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Neyðaráætlun væntanlega tilbúin í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Ragnarsson - RÚV
Rögnvaldur Ólafsson í Almannavarnardeild lögreglustjóra segir að búast megi við að neyðaráætlun vegna Öræfajökuls verði tilbúin í dag. Samkvæmt henni verður fólk flutt á staði sem eru öruggir fyrir jökulhlaupi. Lögreglan á Suðurlandi hittir íbúa á svæðinu í dag.

Rýmingaráætlun er tilbúin í grófum dráttum en verið er að vinna í henni. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að svæðið í kringum Öræfajökul sé rýmt en neyðarrýmingaráætlunina á hins vegar að nota í neyð ef rýma þarf án fyrirvara. Rögnvaldur segir að þá sé ekki gert ráð fyrir að allir séu fluttir á brott heldur að fólk sé fært á örugga staði. „Þá er þetta tilfærsla innan svæðiðisins að fara á þá staði og í þau hús og á þá bæi þar, sem miðað við hættumatið sem búið er að vinna, að þau hús séu örugg fyrir jökulhlaupi.
Hvaða staðir eru þetta?  Ég treysti mér ekki til þess að segja það hér og nú.  Þeir eru að vinna í því núna, lögreglan á Suðurlandi er nú að fara á þessa staði og hitta íbúana á svæðinu og fara yfir þetta með þeim. Við viljum gera það svona fyrst og þegar það er klárt þá verður það gefið út.“ 
 
Samkvæmt rýmingaráætluninni verða allir fluttir á brott. Þeir fá sms um að fara af svæðinu og annað hvort á Höfn eða Klaustur og gefa sig fram í fjöldahjálparstöð til skráningar. 

„Við ætlum að reyna að setja þetta allt skriflegt á blað og hafa þetta á einum stað í einu skjali og það er það sem við köllum rýmingaráætlunina. Það er það sem við erum að vinna en við gefum okkur aðeins lengri tíma til þess heldur en neyðarrýmingarplanið af því við reiknum með að það verði tilbúið svona til útgáfu vonandi í dag.“
 
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV