Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Neyðaráætlun fyrir Öræfajökul

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Fólk verður flutt á örugga staði á svæðinu við Öræfajökul ef rýma þarf í skyndi vegna jökulhlaups, samkvæmt nýrri neyðarrýmingaráætlun sem gefin var út í dag.   

Verði eldgos í Öræfajökli er gert ráð fyrir að nægjanlegur tími verði til að rýma svæðið áður en gos hefst, en ef rýma þarf í mikilli skyndingu með litlum fyrirvara, gildir neyðaráætlunin sem gefin var út í dag. Allir sem eru á hættusvæðinu fá SMS-skilaboð þar sem segir að eldgos sé yfirvofandi og að fólk eigi að fara af svæðinu stystu leið að Svínafelli 1, Hofi 1 eða Hnappavöllum 2, og bíða þar frekari fyrirmæla. Lögreglan sendir bíla til að aðstoða við rýminguna og björgunarsveitir loka þjóðveginum við Lómagnúp í vestri og Jökulsárlón í austri. Sjúkrabílar verða í viðbragðsstöðu við hótel Núpa og Hrollaugsstaði í Suðursveit. Rauði krossinn setur upp fjöldahjálparstöðvar á Kirkjubæjarklaustri og Höfn en ef þörf krefur verða opnaðar fjöldahjálparstöðvar nær rýmingarsvæðinu. Rýmingaráætlunin verður rædd á íbúafundi sem haldinn verður eftir helgi þar sem heimamenn geta komð með ábendingar. 
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV