Neyða jemensk börn í hernað

06.04.2019 - 10:10
epa06614349 Yemeni soldiers participate in a military maneuver supported by the Saudi-led military coalition in the eastern province of Marib, Yemen, 19 March 2018. The Saudi-led military coalition has been supporting armed forces of Yemen's
Jemenskir stjórnarhermenn. Mynd: EPA-EFE - EPA
Börn eru meðal nýliða í herbúðum hernaðarbandalags Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna, sem berjast í stríðinu í Jemen. Börnin voru fengin þangað á fölskum forsendum og er ætlað að verja landamæri Sádi Arabíu fyrir innrás Húta.

Al Jazeera greinir frá. Borgarastyrjöld hefur geisað í Jemen frá árinu 2015. Það ár mynduðu Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin hernaðarbandalag til að berjast gegn Hútum. Hútar eru andspyrnuhópur sem náði yfirráðum yfir höfuðborg Jemen, Sanaa, og stórum hluta af norðvesturhluta landsins árið 2014.

Sádi-Arabía og Jemen skrifuðu hvort tveggja undir alþjóðlegan samning árin 2007 og 2011, sem bannar þáttöku barna í vopnuðum átökum. Her Sádi-Arabíu var þrátt fyrir það sakaður um að fá í lið sér með súdönsk börn til að berjast í Jemen í lok árs 2018. 

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum berjast um einn þriðji af barnahermönnum í Jemen með hernaðarbandalaginu og hinir með Hútum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst hungursneyðinni í Jemen sem mestu neyð sem fyrirfinnst í heiminum í dag. Um 80% íbúa þurfa á stuðningi hjálparstofnana að halda. Hins vegar upplifa mörg börn jafnvel enn skelfilegri raunveruleika, að vera neydd í hernað.

Hinn 16 ára Ahmad al-Naqib og 15 ára Mohammad Ali Hameed eru meðal þeirra. Báðir koma úr fátækum fjölskyldum.

Boðið að vinna í eldhúsi í herbúðunum

Drengirnir voru ginntir í herbúðirnar undir því yfirskini að þeir myndu vinna í eldhúsi þar og vinna sér inn það sem jafngildir rúmum 95 þúsund íslenskum krónum.

„Svo við trúðum þeim og fórum um borð í rútuna,” sagði Ahmad al-Naqib í viðtali við Al-Jazeera. Drengjunum var síðan smyglað manna á milli og yfir landamæri Sádi-Arabíu í herbúðirnar. 

Mörg önnur börn voru í sömu stöðu. Ahmad komst fljótlega að því að ekki væri allt með felldu. Honum var ætlað annað hlutverk en hann hélt, að vera í framlínunni að berjast gegn Hútum.

Samkvæmt frétt Al Jazeera tókst Ahmad að flýja ásamt nokkrum öðrum drengjum úr herbúðunum og komast heim til dauðhræddra foreldra sinna. Mohammad var ekki einn þeirra sem flúði og eru örlög hans ókunn. Fjölskylda hans hefur ekkert heyrt af honum í fimm mánuði. 

Á tímum sem þessum er samviskan dauð

„Ég vildi að hann myndi bara hringja og láta okkur vita að það sé í lagi með hann. Það er allt sem við viljum. Við viljum bara vita hvort hann sé lífs eða liðinn,” segir faðir Mohammad, Ali Hameed í viðtali við Al Jazeera. 

Ali Hameed segir ótrúlegt að herinn hafi komist upp með að ginna drengina til þess að berjast í stríði. „Þeir taka þá með sér í átök til þess að verja Sádi-Arabíu. Eins og þessi börn geti varið konungsríkið, hvar eru vopnin þeirra eða herflugvélarnar?,” segir Ali.

„Á tímum sem þessum er samviskan dauð. Í staðinn er þeim tekið opnum örmum,” segir Ali Hameed, sem lifir í óvissu um örlög sonar síns.

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi