Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nexus gefur Leðurblökumanninn út á íslensku

Mynd: DC Comics / DC Comics

Nexus gefur Leðurblökumanninn út á íslensku

13.11.2018 - 17:29

Höfundar

Verslunin Nexus hefur sett á fót sína eigin myndasöguútgáfu og gefur á næstunni út valdar sögur um Leðurblökumanninn á íslensku.

„Við verðum með opnunarhátíð í Glæsibæ á föstudaginn [verslunin flutti nýlega úr Nóatúni] og á sama tíma ætlum við að kynna myndasöguútgáfu Nexus,“ segir Gísli Einarsson eigandi í viðtali við Síðdegisútvarpið. Von er á fyrstu útgáfunni í byrjun desember en Nexus hefur selt myndasögur í 25 ár, mest á ensku en líka það litla sem hefur komið út út á íslensku. „Bæði þessar belgísku og frönsku, og svo það sem Hugleikur hefur verið að gera. En það hefur ekki verið nein ofurhetjumyndasöguútgáfa í mjög langan tíma, alveg síðan Siglufjarðarprentsmiðja var að gefa út sitt efni fyrir um 35 árum.“

Nú verður breyting þar á því Nexus hefur gert samning við næststærstu myndasöguútgáfu heims, DC Comics, og mun gefa út valdar sögur um Leðurblökumanninn á íslensku. „Þetta verður ein bók á mánuði, milli 100 og 130 síður, allt á íslensku, vönduð prentun og á góðu verði. Þar ætlum við að nýta okkur þessa endurgreiðslu sem bókaútgefendur eiga rétt á frá ríkinu,“ segir Gísli og bætir við að það hafi verið eyða í markaðnum þegar kemur að lesefni fyrir unglinga, fyrir þau „sem eru vaxin upp úr Andrési Önd og vantar eitthvað aðeins harðara og meira spennandi.“

Gísli segir myndasöguna þó líka fyrir eldra fólk og meðalaldur myndasögukaupenda í Bandaríkjunum sé nokkuð hár. En dregur ekkert úr myndasögukaupum með til dæmis snjallsímavæðingunni? „Jú jú. En bókin hefur alveg haldið velli og við reiknum með að hún geri það áfram. Hún er ekkert að fara að hverfa á næstunni. Það vantar líka að kynna myndasöguna betur fyrir Íslendingum. Hún hefur aldrei fengið það kastljós í menningunni sem hún á skilið,“ segir Gísli að lokum.

Rætt var við Gísla Einarsson í Síðdegisútvarpinu. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Stan Lee látinn

Menningarefni

„Ég var nörd langt á undan ykkur“

Bókmenntir

Söfnunarárátta á háu stigi

Menningarefni

Blöðin sem áttu að búa til glæpamenn