Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Netvæðing allra hluta ógn við öryggi heimila

27.12.2017 - 09:35
Snjallsími, spjaldtölva, flakkari og ferðatölva.
 Mynd: Pixabay
Hægt er að brjótast inn á flest nettengd raftæki sem eru með hljóðnema, myndavél eða staðsetningarbúnað. Þetta á einnig við um barnaleikföng, og því mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um hættuna.

Greint var frá því í fréttum RÚV fyrir jól að brotist hafi verið inn í vefmyndavél í svefnherbergi ungabarns. Guðmundur Jóhannsson, tæknisérfræðingur Morgunútvarpsins á Rás 2, segir þetta vera eina af þeim hættum sem fylgi því að snjalltækjavæða heimili. „Það er oft talað um að netvæðing allra hluta er ein af stærri öryggisógnum sem steðja að heimilum í framtíðinni. Þeim er alltaf að fjölga tækjunum á heimilum sem eru nettengd. Með hverju nettengdu tæki fylgir að tækin geta verið opin eða illa hönnuð eða illa við haldið þannig að það koma ekki öryggisuppfærslur,“ sagði hann í viðtali í Morgunútvarpinu í morgun. 

Mikið magn tækja er með veikleika þannig að hægt er að brjótast inn í þau. Hann segir öruggast í tilvikum sem þessum að notast við myndavélar sem aðeins er hægt að horfa á í gegnum sama netbeini. „Ekki í í gegnum vél sem er tengd í gegnum netið. Það er leiðin sem býður öðrum að komast inn.“ Þá segir Guðmundur mikilvægt að breyta lykilorðum tækja eftir að þau hafi verið keypt, ekki nota sjálfgefin lykilorð. 

En hvernig fólk er það sem brýst inn í vefmyndavélar og önnur heimilistæki?

„Í lang flestum tilvikum eru þetta fiktarar, krakkar eða unglingar sem eru að fikta í tölvunni sinni og sjá hversu langt þau komast, eða hversu klár þau eru. Þau nota þessi tæki og tól sem eru frekar aðgengileg og öllum og frjáls til afnota. Það þarf þó meiri skilning á tölvum en hinir almennu borgarar eru með til að gera þetta.“ 

Guðmundur segir að huga þurfi að netöryggi fyrir öll önnur tæki sem eru nettengd, svo sem snjallsjónvörp og myndavélar. Hann mælir með því að fólk lesi sér til um tækin og kaupi ekki hvað sem er, heldur tæki frá þekktum merkjum þar sem stuðningur við tæknilegar uppfærslur eru meiri.