Netflix vinnur að opnun á Íslandi

16.10.2014 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Afþreyingarfyrirtækið Netflix vinnur að því að opna fyrir þjónustu sína hér á landi. Félagið hefur þegar rætt við nokkra rétthafa hér á landi og hófust þær viðræður fyrir einum til tveimur mánuðum síðan. Þótt Netflix sé ekki í boði hér á landi er talið að um 20 þúsund heimili séu með aðgang.

Fréttavefurinn Nútíminn greindi fyrst frá málinu í morgun. Þar var jafnframt vísað í könnun MMR fyrir Viðskiptablaðið þar sem kom fram að einn af hverjum sex Íslendingum væri með aðgang að Netflix.

Hallgrímur Kristinsson, starfandi stjórnarformaður nýrra samtaka réttahafa, segir í samtali við fréttastofu að forsvarsmenn Netflix hafi hafið viðræður við nokkra rétthafa nýlega, mögulega fyrir tveimur til þremur mánuðum síðan.Hann hafi þó ekki heyrt hverju þær viðræður hafi skilað.  

Hallgrímur segir að Netflix hafi nýlega opnað á Norðurlöndum og vilji því augljóslega klára þann heimshluta með því að koma til Íslands. Hallgrímur segir það af og frá að Smáís, forveri nýju samtakanna, hafi staðið í vegi fyrir opnun Netflix á sínum tíma.  Aðilar á rétthafa - markaðinum hafi reynt að fá þessa þjónustu til landsins, fyrirtækið hafi einfaldlega ekki haft áhuga.

Á vef Nútímans er jafnframt fullyrt að Netflix ætli að semja um notkun á íslenskum texta og að fyrirtækið ætli sér enn fremur að semja um réttinn á íslensku efni. Nútíminn segir að Netflix hafi ekki svarað fyrirspurnum fréttavefjarins.

[email protected]

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi