Netflix setur milljónir í íslenska glæpaþætti

epa04890822 Netflix Corporate Headquarters in Los Gatos, California, USA, 20 August 2015. Netflix is an American provider of on-demand streaming media and DVD-by mail content to viewers in North America, Australia, New Zealand, South American and parts of
 Mynd: EPA

Netflix setur milljónir í íslenska glæpaþætti

31.01.2019 - 15:05

Höfundar

Efnisveitan Netflix hefur gert samkomulag við Truenorth, Mystery og RÚV um alheimssýningarréttinn að íslensku sjónvarpsþáttaröðinni The Valhalla Murders. Kostnaður við framleiðslu þáttanna nemur um 700 milljónum króna og tryggir samningurinn við Netflix að nær helmingur fjármögnunarinnar kemur erlendis frá, í gegnum Netflix og frekari sölu á þáttaröðinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra RÚV. 

Þórður Pálsson, sem hlaut einróma lof fyrir stuttmyndina Brothers, er höfundur þáttanna og verður auk þess einn af leikstjórum þeirra ásamt Davíð Óskari Ólafssyni og Þóru Hilmarsdóttur en þeir verða alls átta talsins.

Sannkallað stórskotalið verður í handritshöfundateyminu en það er skipað þeim Margréti Örnólfsdóttur, Óttari Norðfjörð, Ottó Geir Borg og Mikael Torfasyni.  Með aðalhlutverkin  fara þau Björn Thors og Nína Dögg Filippusdóttir.  

Þrátt fyrir enskan titil verða þættirnir allir á íslensku. Þættirnir segja frá því að þegar þriðja manneskjan finnst myrt innan sömu vikunnar áttar lögreglan sig á því að fyrsti íslenski raðmorðinginn gengur laus. Öll fórnarlömbin eru á einn eða annan hátt tengd hryllilegum atburðum sem áttu sér stað fyrir 35 árum. 

„Þessi tímamótasamningur við Netflix og þetta mjög svo áhugaverða verkefni yfir höfuð er stór áfangi í umfangsmikilli og markvissri vinnu okkar á RÚV sem miðar að því að auka til muna framboð, dreifingu en umfram allt gæði leikins íslensks sjónvarpsefnis,“ er haft eftir Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra, í tilkynningunni.