Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Netárás um allan heim - í athugun hér

27.06.2017 - 16:01
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Umfangsmikil árás hefur haft áhrif á tölvur stofnana, fyrirtækja og einstaklinga vísvegar um heim í dag. Breska útvarpið BBC hefur eftir sérfræðingum að þetta kunni að vera svipuð tölvuveira og WannaCry sem olli talsverðum usla víða um heim í síðasta mánuði.

Árásin hefur meðal annars haft áhrif á rússneska olíufélagið Rosneft, bandaríska lyfjarisann Merck og danska skipafélagið Maersk.  Þá greindi seðlabanki Úkraínu frá því í dag að starfsemi margra banka, fjármálastofnana og fyrirtækja þar í landi hefði raskast.

Breska blaðið Independent eftir Rozenko Pavlo, varaforsætisráðherra Úkraínu, að hann og fleiri ráðherrar hefðu ekki getað notað tölvur sínar í dag. Þá greindu yfirvöld frá því síðdegis að eftirlitskerfi  sem mæli geislun í Tjernobyl-kjarnorkuverinu hafi farið úr skorðum.

Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar segir að netöryggissveit sé að kanna málið. Fyrstu vísbendingar séu að vírusinn sé sambærilegur gíslatökuvírusnum WannaCry og að hann smitist með sömu leiðum og hann. Hann vill brýna fyrir fólki að afrita gögn, uppfæra og ekki smella á ókunn skjöl. Von er á fréttatilkynningu frá Póst og fjarskiptastofnun innan tíðar. 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV