Netanyahu minnist fórnarlamba í París

16.07.2017 - 16:01
Erlent · Frakkland · Ísrael · Netanyahu · Evrópa
epa06091257 French President Emmanuel Macron and Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu react after making a joint declaration at the Elysee Palace in Paris, France, 16 July 2017. Media reports state that Benjamin Netanyahu is visiting Paris to
 Mynd: EPA - REUTERS POOL
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, minntist þess í dag að 75 ár eru síðan 13 þúsund gyðingum var safnað saman í París og þeir sendir í útrýmingarbúðir nasista. Netanyahu er fyrsti ísraelski forsætisráðherrann sem kemur til Parísar til að taka þátt í minningarathöfn vegna voðaverksins.

Í ávarpi við minningarathöfn dagsins í dag talaði Netanyahu um sterk tengsl Frakklands og Ísraels. Sagðist hann vera kominn til borgarinnar til að syrgja fórnarlömbin, lofsöng þá sem hættu lífi sínu til að koma þeim til hjálpar á sínum tíma og varaði við uppgangi öfgamennsku í dag.

75 ár eru liðin frá því að 13.000 Gyðingar voru teknir höndum og þeim safnað saman á Velodrome d'Hiver hjólreiðavellinum í París og sendir þaðan í útrýmingarbúðir nasista. 

Fjöldahandtökurnar eru enn þann dag í dag eldfimt umræðuefni í Frakklandi, en Marine le Pen, sem bauð sig fram á móti Macron, var harðlega gagnrýnd í apríl þegar hún gaf í skyn að Frakkar bæru ekki ábyrgð á handtökunum, segir í frétt BBC. Macron tók hinsvegar skýrt fram í dag að Frakkar væru ábyrgir og tók fram að ekki einn einasti Þjóðverji hafi komið að skipulagningu handtökunnar.

Þá var heimsókn Netanyahus til landsins líka tilefni til fyrstu funda hans við Macron Frakklandsforseta augliti til auglitis. Ræddu þjóðarleiðtogarnir meðal annars öryggismál og baráttuna gegn öfgamennsku. 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi