Nektarmynd á net eða mæta allsber í partý?

Mynd með færslu
 Mynd:

Nektarmynd á net eða mæta allsber í partý?

07.10.2014 - 11:43
„Krakkar taka af sér myndir, jafnvel fáklædd og senda öðrum. Þau myndu ekki mæta svona í partý hjá viðkomandi, myndu ekki standa allsber á dyratröppunum en ef þú sendir af þér mynd klæðalausum þá ertu í raun á almannafæri, klæðalaus í allra partýi, það sem eftir er,“ segir Margrét Júlía Rafnsdóttir

verkefnastjóri hjá Barnaheillum, Save the Children Iceland. Samtökin, ásamt SAFT, vinna að því að upplýsa börn um hvernig er hægt að auka öryggi á netinu og koma þar fram af ábyrgð. SAFT vinnur nú að gerð fræðsluefnis og netreglna og hvetja börn og fullorðna til að nota netið á ábyrgan hátt.

„Netið er auðvitað ekkert annað en einn vettvangur lífsins þar sem við eigum samskipti við aðra, öflum okkur upplýsinga og vinnum og lærum. Um það gilda í raun og veru ekki aðrar reglur en á öðrum sviðum lífsins,“ segir Margrét Júlía. „Eini munurinn er sá að við þurfum að sýna sérstaka varkárni því það sem við setjum á netið og í fjölmiðla, það er ekki hægt að uppræta.“ 

Klæðalaus í partýi það sem eftir er

„Oft er talað um myndbirtingar í þessu samhengi. Krakkar taka af sér myndir, jafnvel fáklædd og senda öðrum. Þau myndu ekki mæta svona í partý hjá viðkomandi, þau myndu ekki standa allsber á dyratröppunum en ef þú sendir af þér mynd þar sem þú ert klæðalaus þá ertu í raun á almannafæri, klæðalaus í allra partýi það sem eftir er,“ segir Margrét Júlía. „Þetta hefur aukist mjög á undanförnum árum, fyrir nokkrum árum heyrðu myndbirtingar af íslenskum ungmennum á netinu til undantekninga, en það hefur aukist mjög mikið - bæði myndbirtingar þar sem börn og ungmenni eru sýnd á kynferðislegan hátt, kynferðislegt tal og einelti milli jafnaldra,“ segir hún. 

„Sá sem tekur við myndunum og dreifir þeim, hann er ábyrgur, en sá sem lætur til leiðast að láta taka af sér mynd verður að læra að setja mörk og vera nógu hugrakkur til að segja nei. Standa með sjálfum sér og félögum sínum í að láta ekki undan þrýstingi.“ 

Barnaheill rekur ábendingalínu þar sem hægt er að tilkynna ólöglegt og óviðeigandi efni.