Nektardans til sölu og grunur um vændi

11.02.2019 - 19:09
Mynd:  / 
Grunur leikur á að á kampavínsklúbbnum Shooters hafi farið fram skipulögð brotastarfsemi, vændi og jafnvel mansal. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu innsiglaði staðinn um helgina. Sala á nektardansi hefur viðgengist á klúbbnum eins og myndskeið sem fréttaskýringaþátturinn Kveikur tók, sýnir.

Kveikur hefur á undanförnum mánuðum unnið að fréttaskýringu um vændi á Íslandi og var myndskeiðið tekið í því skyni að kanna hvað færi fram á staðnum. Útsendari Kveiks spyr hvað gerist á efri hæð hússins og segir starfsmaðurinn honum að þar geti hann fengið einkadans.

Útsendarinn fór með falda myndavél á efri hæð staðarins í fylgd erlendrar konu. Þar fóru þau inn í lokað rými þar sem konan afklæddist og dansaði í kjöltu útsendarans.

Kveikur bar myndefnið undir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í ársbyrjun sem taldi myndbandið sýna ólöglegt athæfi.

Lögreglu hefur borist fjöldi ábendinga frá því í haust um mögulega brotastarfsemi á Shooters. Svo virðist sem eftirgrennslan Kveiks hafi orðið til þess að meiri þungi hafi verið settur í rannsókn á staðnum en um helgina innsiglaði lögregla hann. Kveikur hefur heimildir fyrir því að grunur leiki á að þar hafi farið fram skipulögð brotastarfsemi. Auk nektardans sé verið að rannsaka hvort þar hafi farið fram fíkniefnasala, vændi, mansal og peningaþvætti.  

Umfjöllun Kveiks um vændi á Íslandi verður á dagskrá á næstu vikum.

Lára Ómarsdóttir/Stefán Drengsson
 

 

larao's picture
Lára Ómarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi