Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Neitaði að afla gagna fyrir Gunnar

17.10.2012 - 14:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hafnaði í dag beiðni Guðjóns Ólafs Jónssonar, verjanda Gunnars Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, um að afla gagna um viðskipti Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þingmanns við Landsbankann.

Guðjón Ólafur lagði í síðustu viku fram bókun Gunnars þar sem hann sagðist ekki geta haldið uppi fullum vörnum nema hann fengi aðgang að ýmsum gögnum sem vörðuðu sölu Guðlaugs á umboði fyrir tryggingar Swiss Life til Landsbankans árið 2003, um það leyti sem Guðlaugur settist á þing. Gunnar sagði í bókun sinni að það sem kæmi fram í þessum gögnum gæti skýrt þá háttsemi sem honum væri gefin að sök í ákæru og haft áhrif á ákvörðun um refsingu ef hann yrði sakfelldur. Gunnar er ákærður fyrir að hafa komið gögnum til DV með ólöglegum hætti.

Helgi Magnús sagðist við fyrirtöku málsins í dag eiga erfitt með að sjá að það væri nauðsynlegt fyrir vörn Gunnars að ákæruvaldið aflaði þessara gagna og legði þau fram. Eins mátti greina á máli vararíkissaksóknara að hann efaðist um að gögnin yrðu Gunnari að gagni þar sem hann hefði valið að koma upplýsingum til fjölmiðla í stað lögreglu. Hins vegar myndi saksóknari afla gagnanna ef dómari teldi það nauðsynlegt.

Guðjón Ólafur krafðist þess þá að dómari beindi því til ákæruvaldsins að það aflaði tiltekinna gagna en fór jafnframt fram á frest í skamman tíma svo hann gæti undirbúið málflutning sinn. Erfiðlega gekk hins vegar að finna dagsetningu sem hentaði og varð því niðurstaðan sú að málið verður næst tekið fyrir 1. nóvember næstkomandi. Þá takast saksóknari og verjandi á um hvort afla eigi gagnanna eða ekki.