Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Neikvæð gagnvart vinnu geðsjúkra

11.05.2014 - 20:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Almenningur er neikvæðari gagnvart atvinnuþátttöku geðsjúkra en blindra og heyrnarlausra. Fólk er jákvæðast gagnvart atvinnuþátttöku hreyfihamlaðra. Þetta kemur fram í rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Gagna var aflað með spurningalista sem sendur var til 1.200 einstaklinga á netinu en svarhlutfall var sextíu prósent. Svarendur voru ósáttari við þá tilhugsun að fólk með geðsjúkdóm eða þroskahömlun sitji til dæmis á Alþingi fyrir þeirra kjördæmi, sinni umönnun barna eða afgreiði í verslun en að blint, heyrnarlaust eða hreyfihamlað fólk sinni sömu störfum.

Konur voru líklegri en karlar til að vera sáttar við atvinnuþátttöku blindra og heyrnarlausra, fólks með þroskahömlun, hreyfihamlaðra og fólks með geðsjúkdóm. Háskólamenntaðir voru almennt sáttari við atvinnuþátttöku sömu hópa en þátttakendur með grunn- eða framhaldsskólamenntun. Þeir sem voru á aldrinum 18 til 29 ára og þeir sem voru sextíu ára og eldri voru neikvæðastir í garð atvinnuþátttöku þessara hópa.

Einnig kom í ljós að svarendur voru ósáttari við að karlmaður með geðsjúkdóm starfaði við umönnun barna en kona með geðsjúkdóm.

Um tuttugu prósent svarenda töldu mjög eða frekar mikla fordóma í garð fatlaðs fólks og öryrkja í sínu byggðarlagi. Meirihluti svarenda, eða 65 prósent, taldi fordóma mjög litla eða frekar litla.