Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nefúðar sem geta bjargað mannslífum

09.01.2019 - 20:21
Mynd með færslu
Valgerður Rúnarsdóttir. Mynd: RÚV
Yfirlæknir á Vogi segir að öll viðbragðsteymi ættu að hafa aðgang að nefúða með móteitri gegn ofskömmtun ópíóíða. 32 fíklar undir fertugu, sem voru skráðir í gagnagrunninn á Vogi, dóu á síðasta ári. Lyfið er notað í hverri viku, þá í æð eða undir húðina, á bráðamóttöku Landspítalans.

Kemur í veg fyrir öndunarstopp

Hátt í fimm hundruð útköll sjúkrabíla á höfuðborgarsvæðinu voru vegna ofneyslu lyfja í fyrra. Talið er að í það minnsta 52 hafi dáið vegna lyfjaeitrunar á árinu, samkvæmt landlæknisembættinu, en ópíóíðar eru banvænir í ofskömmtum og valda öndunar- og hjartastoppi. Lyfið naloxon, sé það gefið á réttu augnabliki, getur komið í veg fyrir dauða eða taugaskemmdir vegna ofskömmtunar ópíóíða. Á Landspítalanum er það notað að minnsta kosti einu sinni í viku og um það bil einu sinni í mánuði á Vogi.

,,Það kemur fyrir að fólk kemur hérna inn og þá er það búið að taka lyf áður en það kemur inn og þá kemur það fljótlega í ljós ef þetta er orðið of mikið og við sjáum það fljótt á fólki," segir Ásdís M. Finnbogadóttir, hjúkrunarfræðingur á Vogi. 

500 stykki á leið á Vog

Nefúði með naloxon átti að koma á markað hér, en það virðist ekki ætla að verða að veruleika. Lyfjastofnun afgreiðir úðann þó á undanþágu til heilbrigðisstofnana og eru fimm hundruð stykki á leið á Vog. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segir þetta form einfalda gjöfina og auðvelda allan undirbúning. 

,,Af því að þetta er bara úði sem er gefinn í nefið og svo eru líka til önnur form sem fólk getur gefið sjálft og eru samt stungulyf, en þetta er til að auka aðgengið. Það ætti að vera aðgengilegra þetta lyf, sérstaklega fyrir alla sem eru í viðbragsteymum," segir Valgerður. 

Aldrei fleiri ungir fíklar dáið

Á síðasta ári létust 32 fíklar undir fertugu sem hafa verið á Vogi og hafa þeir aldrei verið fleiri. 

,,Sjálfsagt hafa þessi lyf einhver hlut að máli hjá að minnsta kosti sumum. Það eru margar ástæður dauðsfallanna, en þetta er auðvitað grafalvarlegt, það er ekki hægt að segja annað," segir Valgerður.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV